Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Bergþór oddviti Miðflokksins í norðvestri

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Bergþór Ólason leiðir lista Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hann starfaði áður í Sjálfstæðisflokknum og var um skeið aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Bergþór er fyrsti oddviti á lista Miðflokksins sem tilkynnt er um. Hann segir í myndbandi á vef Miðflokksins að hann leggi áherslu á að byggt verði nýtt sjúkrahús og að það verði á nýjum stað. Það er í samræmi við fyrri orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, stofnanda flokksins.

Þá nefnir Bergþór lækkun tryggingagjalds sem eitt af þeim málum sem hann leggi áherslu á. 

Sem fyrr segir er Bergþór fyrsti oddviti Miðflokksins á framboðslista sem tilkynnt er um. Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, sagðist vera velta málum fyrir sér þegar fréttastofa spurði hana í gær hvort hún hygði á framboð fyrir Miðflokkinn. Hún hafði tilkynnt að hún stefndi á fyrsta sæti Framsóknarflokksins í Reykjavík norður en hætti við eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tilkynnti úrsögn sína úr flokknum og stofnun nýs flokks.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV