Bergþór bað Ingu Sæland afsökunar

29.11.2018 - 00:57
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, ræddi við Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, í kvöld, og bað hana afsökunar á grófum og niðrandi ummælum sem hann hafði í frammi um hana þar sem hann sat á bar í Reykjavík ásamt þremur flokksystkinum sínum og tveimur þingmönnum Flokks fólksins í liðinni viku. Ummælin náðust á hljóðupptöku af samræðum þingmannanna, sem DV og Stundin hafa undir höndum og hafa unnið fréttir upp úr.

Ummælin náðust á hljóðupptöku af samræðum þingmannanna, sem dv.is og Stundin hafa undir höndum og hafa unnið fréttir upp úr. 

Af mörgu miður fallegu sem þar er látið fjúka - aðallega í gríni, að því er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins segir á Facebook-síðu sinni - eru ummæli Bergþórs um Ingu allra sóðalegust, en samkvæmt fréttum Stundarinnar og DV kallar hann hana meðal annars „húrrandi klikkaða kuntu.“

Í Facebook-færslu sinni í kvöld segir Bergþór að sér hafi orðið „hressilega á í messunni hvað munnsöfnuð varðar, í garð manneskju sem hafði ekkert sér til sakar unnið til að verðskulda þá yfirhalningu.“ Segist Bergþór sem svo virðist að hann hafi þarna notað orðfæri sem sé honum framandi og hann viti ekki til að hann hafi áður notað. Þá segist hann hafa rætt við Ingu Sæland í kvöld, sem fyrr segir, og beðið hana afsökunar á framgöngu sinni.

„Flest þekkjum við að hafa í lokuðu rými talað óvarlega, og jafnvel af ósanngirni um annað fólk, þá sérstaklega þegar öl er haft um hönd, en það breytir því ekki að svona á maður ekki að tala um fólk,“ skrifar Bergþór að lokum. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi