Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Berggangur kominn í sprungusveim Öskju

28.08.2014 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Berggangurinn út frá Bárðarbungu, sem stefnt hefur að Öskju undanfarna daga, er nú kominn í sprungusveim Öskju. Þetta segir Kristín Vogfjörð fagstjóri jarðvár hjá Veðurstofu Íslands.

Kristín segir að verið sé að skoða hringsprungurnar sem sáust í gær. „Við erum að mælta dýptina á sprungunum. Hún þarf að vera ljós til að við sjáum hversu mikið hefur flætt. Þá hefur það vatn væntanlega farið í Grímsvötn því engin breyting hefur sést á Jökulsá á Fjöllum."

Kristín segir að vatnsborð Grímsvatna hafi hækkað um 5-10 metra síðustu daga. „Það getur líka stafað af aukinni bráðnun á jöklinum. Þetta vitum við ekki með vissu."

Gliðnunarsprungurnar í Holuhrauni eru aðeins áhrif kvikunnar í bergganginum. „Skjálftavirkni hefur aukist í Öskju og spennan þar hefur aukist mikið vegna gangsis. Hann er nú kominn í sprungusveim Öskju. Af þeim sökum höfum við fært viðbúnaðarstig vegna flugs á gult, sem þýðir að það er engin hætta en það er fylgst betur með þróuninni. Við vitum ekki enn hvað þetta boðar," segir Kristín.

Víðir Reynisson segir að engar breytingar hafa verið á viðbragðsáætlunum enn sem komið er. Búið er að boða íbúafund í Ljósvetningabúð í kvöld þar sem farið verður yfir stöðuna. „Við höfum ekki áhyggjur af flóðum úr Grímsvötnum. Við þekkjum þau vel, sérstaklega frá Gjálpargosinu 1996, og vitum hvaða merki koma þegar flóð fer af stað þar."