
Berfótagarður í Bláskógabyggð
Í garðinum er stígur sem liggur á milli hárra trjáa. Í hann hefur verið komið fyrir sandi, könglum, steinum og níu öðrum náttúrulegum tegundum. Hugmyndin er að gestir finni fyrir náttúrunni undir fótum sér. „Það eru ýmsar kenningar um að maður gangi eðlilegast ef maður er berfættur. Það er hollt að finna fyrir jörðinni og það er líka ögrandi, því maður er yfirleitt lítið í því að ganga berfættur,“ segir Sigrún Elfa Reynisdóttir sem rekur Lífræna markaðinn á Engi.
„Hugmyndin kviknaði fyrir nokkrum árum, þegar það kom til mín íslensk kona sem bjó í Þýskalandi og sagði: „Þú verður að gera berfótagarð hér!“ Ég vissi ekkert hvað það var en fór að kynna mér málið og komst að því að það er mikið af svona görðum í Þýskalandi og víðar. Þar keyrir fólk langar leiðir til þess að komast í góðan berfótagarð.“
Garðinn er opinn gestum á sama tíma og lífræni markaðurinn sem Sigrún rekur ásamt eiginmanni sínum. Verslunarmannahelgin er síðasta helgin sem fyrirhugað er að hafa opið í sumar en Sigrún segir þó mögulegt að bætt verði við dögum enda hafi garðurinn hlotið góð viðbrögð. „Við höfum fengið mjög góð viðbrögð og þetta hefur verið mjög gaman. Svo ætlum við að vinna áfram með hugmyndina og erum að skoða ýmsar útfærslur. Við erum til dæmis búin að ákveða að það eigi að verða hægt að ganga um garðinn blindandi en þá er haldið í snúru sem leiðir mann í gegnum garðinn. Það eykur á skynjunina.“