Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bera fráveitumálin undir baklandið á Héraði

29.05.2018 - 12:16
Egilsstaðir, Fljótsdalshérað. Mynd tekin í júlí 2013. Mynd: Rúnar Snær Reynisson
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Á Fljótsdalshéraði hafa bæði Héraðslisti og Framsókn lýst yfir áhuga á að starfa með Sjálfstæðisflokki og óháðum. Þreifingar virðast lengra komnar milli Sjálfstæðismanna og Héraðslista sem kanna nú í baklandi sínu hvort málamiðlun finnist í fráveitumálum. Flokkarnir voru ekki sammála í fráveitumálum fyrir kosningar.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafa bæði Framsókn og Héraðslistinn lýst yfir áhuga á viðræðum við Sjálfstæðisflokk og óháða. Margir Sjálfstæðismenn telja eðlilegt að ræða við Héraðslistann sem var samstarfsflokkur þeirra á síðasta kjörtímabili og hlaut mest fylgi. Jafnvel þó hann hafi ekki verið sammála Sjálfstæðisflokknum í veitumálum. Héraðslistinn lagðist fyrir kosningar gegn lausn Sjálfstæðismanna og vildi halda í núverandi hreinsivirki og fara í framkvæmdir jafnvel þó að taka þyrfti lán.

Lántaka eitur í beinum Sjálfstæðismanna

Anna Alexandersdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna, segir að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Héraðslistans þurfi að ræða ákveðin mál við baklandið áður en lengra sé haldið. Stöðugleiki í fjárhag sveitarfélagsins skipti miklu máli, að halda áfram að greiða niður skuldir og að eiga fyrir framkvæmdum. Hún tekur fram að formlegar viðræður séu ekki hafnar og að báðir kostir komi enn til greina. Það gæti skýrst í kvöld hvaða stefnu viðræðurnar taka.

Línur gætu skýrst í Fjarðabyggð í kvöld

Í Fjarðabyggð er Fjarðalistinn í lykilstöðu og ræddi í gær við fulltrúa allra hinna flokkanna, Framsókn, Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn. Eydís Ásbjörnsdóttir, oddviti, segir að viðræðurnar séu enn óformlegar og að mikilvægt sé að vanda til verka.  Bakland Fjarðalistans ætli að hittast á fundi seinnipartinn og þá gætu línur farið að skýrast.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV