Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ber karlmaður og köttur í búð

19.07.2012 - 06:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Eitt og annað kom upp hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Hafði hún meðal annars afskipti af manni sem vildi gista í bíl við Smiðjuveg, öðrum sem afklæddist á Klambratúni og ketti sem var sólginn í harðfisk.

Rétt upp úr klukkan eitt í nótt var reyndi ölvaður maður að komast inn í bíla við Smiðjuveg í Kópavogi. Þegar lögregla kom á staðinn og innti hann eftir því hvað honum stæði til sagðist hann vera utan af landi og hefði enga gistingu. Hann ætlaði því að komast í skjól í einhverjum bílanna og hafa þar næturstað. Maðurinn var færður á lögreglustöð þar sem hann gisti í fangaklefa í nótt eða þar til rennur af honum.

Þá hafði lögregla afskipti af ungum manni sem beraði sig á Klambratúni í gærkvöldi. Sá var einnig ölvaður og var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu þar sem hann mun gista þar til hægt verður að ræða við hann.

Og lögreglan hafði ekki aðeins afskipti af fólki í nótt því um klukkan hálf þrjú barst lögreglunna á höfuðborgarsvæðinu tilkynning frá næturverslun í borginni sem átti í vandræðum með kött. Kötturinn hafði komið í verslunina og sótt sér þar harðfisk til að gæða sér á. Áttu starfsmenn verslunarinnar í nokkrum vandræðum með köttinn og óskuðu eftir aðstoð lögreglu við að fjarlægja hann úr búðinni. Lögreglan benti starfsmönnum hins vegar á að slíkt væri ekki verkefni hennar og vísaði þeim á að hafa samband við meindýraeyði eða heilbrigðiseftirlitið.