Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Benti Evrópuráðsþinginu á álit siðanefndar

18.12.2019 - 07:42
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Samsett mynd
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sendi Liliane Maury Pasquier, forseta Evrópuráðsþingsins erindi þann 9. desember og vakti þar athygli á því að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata hafi gerst brotleg við siðareglur alþingismanna, fyrst þingmanna hér á landi.

 „Mér finnst mikilvægt að gera viðvart um þessi brot“ 

Morgunblaðið greinir frá. „Mér finnst mikilvægt að gera viðvart um þessi brot þingmannsins. Þórhildur Sunna rækti ekki störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika samkvæmt áliti forsætisnefndar og siðanefndar,“ segir Ásmundur í samtali við Morgunblaðið.

Þingið hafi ítrekað lagt áherslu á það við aðildarríki sín að þau setji siðareglur fyrir alþingismenn sem jafnframt feli í sér viðurlög. Þá sé Evrópuráðsþingið sjálft með siðareglur sem það hafi sett sér, þar sem kveðið er á um viðurlög við brotum, svo sem skerðingu réttinda innan þingsins. 

Í ljósi þess að Þórhildur Sunna sé varaformaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og formaður laga- og mannréttindanefndar þingsins, ætti það að íhuga aðgerðir gagnvart þingmanninum. Evrópuráðsþingið hafi áður látið sig varða skipan Íslandsdeildar. 

Fyrst þingmanna til að gerast brotleg við siðareglur

Forsætisnefnd Alþingis staðfesti álit siðanefndar í lok júnímánaðar og sögðu Þórhildi Sunnu hafa gerst brotlega við siðareglur fyrir alþingismenn vegna ummæla hennar um Ásmund í Silfrinu á síðasta ári.

Þar sagði hún að uppi væri rökstuddur grunur um að Ásmundur Friðriksson hefði dregið sér fé og brotið reglur um akstursgreiðslur en ekki væri verið að bregðast við og setja á fót rannsókn á þessum efnum. 

Ásmundur kvartaði til forsætisnefndar vegna ummæla Þórhildar og Björns Levís Gunnarssonar þingmanns Pírata um endurgreiðslur frá Alþingi á grundvelli skráninga í akstursdagbók hans. Siðanefndin taldi að Björn hefði ekki gerst brotlegur við reglunar. 

Þórhildur Sunna var fyrsti þingmaðurinn til að teljast brotleg við siðareglur Alþingis. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, tilkynnti við setningu 150. löggjafarþings í september, að endurskoðun á siðareglum Alþingis væri hafin. Drög að nýjum reglum væru nú til umsagnar.