Bensín- og dísilbílar bannaðir í Amsterdam

07.05.2019 - 14:30
Mynd með færslu
 Mynd: EPA - EPA
Notkun bensín- og dísilbílar verður bönnuð í höfuðborg Hollands, Amsterdam, frá árinu 2030. Þetta er gert til að draga úr loftmengun sem talið er að stytti ævi íbúa borgarinnar um ár. Dísilbílar sem eldri eru en 15 ára verða bannaðir í borginni frá áramótum.

Mengandi strætisvagnar og rútur mega ekki koma í miðborgina frá og með 2022. Bannað verður að nota báta, bifhjól og skellinöðrur sem gefa frá sér mengun 2025 en bannið tekur til allrar umferðar frá 2030. Þetta kemur fram í frétt Guardian.

Borgaryfirvöld ætla auk þess að hrinda af stað verkefni sem hvetur íbúa til að skipta yfir í raf- og vetnisknúna bíla. Vonir standa til að markaður með notaða rafbíla blómstri á næstu árum. Nú eru þrjú þúsund hleðslustöðvar fyrir rafbíla í Amsterdam en þeim verður fjölgað í 16-23 þúsund fyrir 2025.

Mengun frá umferð í borgum Hollands, auk Amsterdam, Rotterdam og Maastricht er meiri en leyfileg mörk í Evrópureglum. Óttast er að hátt hlutfall niturdíoxíðs og annarra eiturefna í andrúmslofti hollenskra borga auki líkur á öndunarfærasjúkdómum.

Þrýstihópur bílaframleiðanda gagnrýnir aðgerðir borgaryfirvalda í Amsterdam og segir þær undarlegar og feli í sér afturför. Margir borgarbúar hafi ekki tök á að kaupa sér rafbíla og með þessu verði Amsterdam borg hinna ríku.

Heilbrigðisráð Hollands fór þess á leit við stjórnvöld í janúar í fyrra að gripið yrði til tafarlausra aðgerða til að stemma stigu við loftmengun enda væri hún ógn við heilsu almennings.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi