
Beittu táragasi gegn mótmælendum í Frakklandi
Forsvarsmenn OPP, sérstaks hóps sem fylgist með aðgerðum lögreglu á mótmælum gulvestunga, sögðu að lögregla hefði í dag ráðist að fimm mótmælendum og slasað einn. Lögreglan hefur ekki svarað ásökununum að svo stöddu.
Boða skattalækkanir
Gulvestungar krefjast bættra kjara alþýðunnar. Stjórnvöld hafa þurft að breyta áformum sínum til að koma til móts við þeirra kröfur, en ganga ekki nógu langt að mati mótmælenda.
Yfirvöld í Frakklandi kynntu í vikunni fjárlagafrumvarp næsta árs. Þar er kveðið á um skattalækkanir fyrir heimilin. Lækkunin sem er boðuð nemur um níu milljörðum evra. Emmanuel Macron Frakklandsforseti hafði áður lofað fimm af þessum níu milljörðum evra með það að markmiði að róa mótmælendur. Mbl.is greindi frá.
Gulvestungar einnig á mótmælum vegna loftslagsbreytinga
Gulvestungar tóku þátt í mótmælum gegn aðgerðarleysi í loftslagsmálum í höfuðborg landsins í dag.
Í síðustu viku var lögreglan í París með aukin viðbúnað vegna ótta við að gulvestungar og æsingamenn úr þeirra röðum hleyptu upp loftslagsmótmælum sem þá voru einnig boðuð í borginni. Um 7.500 lögreglumenn voru á vakt og beittu táragasi til að dreifa mótmælendum. Um hundrað voru handteknir.
Fréttin hefur verið uppfærð.