Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Beinagrindin með bláu tennurnar

Mynd:  / 

Beinagrindin með bláu tennurnar

11.02.2019 - 16:15

Höfundar

Það gerist ekki oft að greinar sem birtast í vísindatímaritum fyrir raunvísindagreinar veki athygli bókmenntafræðinga. En ein slík grein birtist á nýju ári 2019 þar sem Anita Radini, Christina Warinner og Alison Beach greindu frá rannsóknum sínum á tannsteini á beinagrind sem grafin var upp í smábænum Lichtenau í Þýskalandi.

Greinin birtist í bandaríska vísindatímaritinu Science Advances. Beinagrindin var af konu, á aldrinum 45-60 ára. Hún lifði góðu lífi, beinin báru engin merki um sjúkdóma eða áverka og bentu til þess að hún hefði lifað kyrrsetulífi, ekki þrælkað á ökrunum eða við eldstóna. Hún var grafin í kirkjugarði sem stóð við nunnuklaustrið Dalheim þar í sveitinni og lést einhvern tímann á tímabilinu 997 til 1162.

Radini og Warinner beindu smásjánni að tönnunum í beinagrindinni, þær voru að leita að leifum af plöntum til að rannsaka mataræði fólks á þessum tíma. Þeim að óvörum fundu þær skærbláa bletti á tönnunum. Í ljós kom að bláu flekkirnir sem voru varðveittir í tannsteini beinagrindarinnar voru lapis lazuli eða asúrsteinn, heiðblár gimsteinn sem aðeins er að finna í Afganistan. Asúrsteinar voru fluttir dýrum dómum til Evrópu til að búa til bláu málninguna sem við sjáum til dæmis á kjólum Maríu meyjar á málverkum þessa tíma. Liturinn á tönnunum benti því til þess að konan var skrifari eða málari, að liturinn festist á milli tannanna þegar hún bleytti pensilinn með tungunni við störf sín.

Warinner og Radini skrifa greinina í samstarfi við sagnfræðinginn Alison Beach sem starfar að rannsóknum á kvenskrifurum í Þýskalandi á 12. öldinni og vinnur að því að skrásetja handrit frá þeim tíma sem vitað er að voru skrifuð af konum.

Beach fór yfir skjöl sem varðveist hafa um nunnuklaustrið í Dalheim og nágrenni á þeim tíma sem hin nafnlausa kona var uppi. Hún fann vísbendingar um að konur sem bjuggu í nágrenni við Dalheim hefðu verið virkar við handritaskrif, bréf frá árinu 1168 þar sem bókhaldari í munkaklaustri biður systur N sem býr í klaustri 65 kílómetra frá Dalheim að búa til skinnhandrit klætt leðri og silki. Skinnhandrit klædd silki eru verðmæt handrit, handrit sem ætla mætti að máluð væru með dýrri málningu líkt og asúrsteini. Einnig bar Beach kennsl á a.m.k. eitt handrit sem vitað er að var skrifað af konu á þessum tíma, handrit sem myndlýst var með asúrsteins-málningu.

Beinagrind nafnlausu konunnar í Dalheim er í fyrsta skipti sem að fræðimenn geta fyrir vissu sagt að kona hafi notað þennan rándýra bláa lit sem aðeins bestu málararnir fengu að nota á miðöldum, engin önnur beinagrind konu í Evrópu hefur fundist með lapiz lazuli, asúrstein, milli tannanna. Fáar ritaðar heimildir er að finna um þetta tímabil í klaustrum Þýskalands, og því hefur þessi rannsókn vakið töluverða athygli. Rannsóknin vekur upp spurningar hve margar konur sem iðkuðu skriftir á miðöldum hafa verið strokaðar út úr sögunni sem er, eins við vitum nú flest, mestmegnis – kannski –  skrifuð af körlum.

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir sagði frá rannsókninni, í bókmenntaþættinum Orð um bækur 9. febrúar 2019 á Rás 1.