Bein Íslendinga finnast í fjöldagröf

Mynd með færslu
 Mynd:

Bein Íslendinga finnast í fjöldagröf

05.03.2014 - 15:25
Bein ungra Íslendinga eru meðal beinagrinda um 50 norrænna manna sem fundist hafa í fjöldagröf frá tímum víkingaferða í Weymouth í Dorset á Englandi. Talið er að mennirnir hafi allir verið teknir af lífi á árunum 970-1025.

Niðurstöður rannsókna á fjöldagröfinni þykja merkilegar fyrir margra hluta sakir. Hún fannst við vegagerð í Weymouth og í henni 50 ungir karlar sem höfðu verið hálshöggnir. Líkunum hafði verið fleygt í stóra gröf en hausunum hafði verið staflað til hliðar. Með greiningu á efninu strontíum í tönnum mannanna má sjá hvar þeir hafa alist upp. Þeir eru frá Noregi, Svíþjóð, Íslandi, Eystrasaltslöndunum, Hvíta-Rússlandi og Rússlandi.

Sérfræðingar telja að mennirnir séu úr hópi norrænna víkinga og er þetta í fyrsta sinn sem slík gröf finnst frá víkingatímanum í Bretlandi og í fyrsta sinn sem Íslendingur finnst þar á meðal.

Með geislakolsmælingu sést að mennirnir voru teknir af lífi á árunum 970 til 1025, á tíma Knúts mikla Danakonungs og Aðalráðs ráðlausa Englandskonungs. Aðalráður ráðlausi var konungur Englands á árunum 978-1013 og aftur frá 1014 til dauðadags. Hann samþykkti hvað eftir annað að greiða víkingunum geysimikið fé og voru þessar greiðslur kallaðar Danagjöld.

Aðalráður greip til þess 13. nóvember 1002 að skipa svo fyrir að allir norrænir menn búsettir á Englandi - karlar, konur og börn - skyldu drepnir, þar sem þeir hefðu lagt innrásarmönnum lið. Ekki er ljóst hve víðtæk slátrunin var en talið er að mannfall hafi verið töluvert.