Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Beiðnir um hlerun nær alltaf samþykktar

25.02.2013 - 22:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögreglustjóraembætti landsins og embætti sérstaks saksóknara hafa 875 sinnum farið þess á leit við dómstóla frá ársbyrjun 2008 að þau fái heimild til hlerunar. Dómstólar hafa nær alltaf orðið við slíkum beiðnum. Aðeins sex beiðnum hefur verið hafnað og tvær voru samþykktar að hluta.

Ein beiðni var dregin til baka en aðrar samþykktar. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.

Mjög misjafnt er hversu lengi símar eru hleraðir. Styst var það innan við einn sólarhringur en mest í 110 daga. Þá er brestur á því að þeir sem sættu hlerunum hafi verið upplýstir um slíkt, stundum vegna þess að lögregla sagðist ekki hafa haft upp á þeim til að tilkynna þeim um afstaðna símhlerun.

Athygli vekur í svari ráðherra að ríkissaksóknari gat ekki veitt innanríkisráðuneytinu þær upplýsingar sem það þarfnaðist til að svara fyrirspurninni. Það þó ríkissaksóknaraembættið fari lögum samkvæmt með eftirlit með símahlustunum og öðrum sambærilegum úrræðum. Þess í stað vísaði ráðuneytið á dómstólaráð og einstök lögreglustjóraembætti auk sérstaks saksóknara.