Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Beðin um að bregðast við enskum örnefnum

13.07.2019 - 15:06
Ferðamenn í Reynisfjöru
 Mynd: ruv - ruv
Örnefnanefnd sendi í lok síðasta mánaðar sveitarfélögum erindi þar sem þau voru beðinn um að fylgjast með því hvort ensk örnefni séu að verða fyrirferðameiri en hin íslensku á skiltum og vegvísum. Örnefnanefnd mælist jafnframt til þess að reynt verði að finna leiðir til að bregast við ef ensk nöfn á íslenskum stöðum séu líkleg til að festast í sessi.

Bréf Örnefnanefndar var tekið fyrir á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar á fimmtudag.

Í því er meðal annars vitnað í pistil úr Speglinum sem nefndist: „Tók Diamond Beach Breiðamerkursand af Google?,“ þar sem meðal annars var fjallað um The Diamond Beach sem Íslendingar þekkja betur undir nafninu Breiðamerkursand og Black sand Beach sem á íslensku heitir Reynisfjara.

Örnefnanefnd segir það að vissu leyti eðlilega miðlun íslensks menningararfs til útlendinga að skýra íslensk örnefni með því að þýða þau á erlend mál.  „Hins vegar verður að gæta þess að erlendu nöfnin verði ekki fyrirferðarmeiri en hin íslensku,“ segir í bréfinu.

Þá hafi ferðaþjónustan, sem sé orðin mikilvæg atvinnugrein hér á landi, myndað þörf á að nefna svæði sem ekki höfðu sérstakt nafn áður. „En jafnframt bendir þetta á að þörf fyrir ný örnefni skapast ekki einungis þegar til verða ný náttúrufyrirbæri heldur einnig af breytingum í menningu og atvinnuháttum.“

Nefndin mælist því til þess að reynt verði að finna leiðir til að bregðast við ef ensk nöfn á íslenskum stöðum séu líkleg til að festast í sessi. Sveitarfélög eigi að hafa frumkvæði að því að gefa stöðum nöfn þegar þörf á því kemur upp og „sporna þarf gegn óviðunandi nafni sem annars gæti fest í sessi.“ Eðlilegast sé að íbúar í nærumhverfi hafi frumkvæði að nafngjöf í slíkum tilvikum.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV