Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

BDSM teljist ekki lengur til sjúkdóma

11.12.2015 - 11:41
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons - Wikipedia
Landlæknir hefur lagt til að BDSM-hneigðir verði ekki lengur taldar til sjúkdóma. Hann leggur til að þar með feti íslensk yfirvöld í sömu fótspor og yfirvöld annars staðar á Norðurlöndum sem hafa öll tekið BDSM-hneigðir af sjúkdómaskrá. Verði farið að tilmælum landlæknis hverfa tvíhverf klæðskiptahneigð, blætisdýrskun, blætisdýrkun klæðskiptagerðar og sadómasókismi af sjúkdómaskránni.

Tilmæli landlæknis eru í takt við bréf sem félagið BDSM á Íslandi sendi landlækni í september. Þar sagði að Ísland væri eina ríkið á Norðurlöndum sem enn skilgreindi BDSM-hneigðir sem geðsjúkdóm og hvatt var til þess að hneigðirnar yrðu teknar af sjúkdómaskrá. Um það leyti sagði Magnús Hákonarson, formaður BDSM á Íslandi, að það ylli mörgum hugarangri og kvíða að hneigðir þess væru skráðar sem sjúkdómur. 

„Þetta eru gleðifréttir. Það er ekkert annað hægt að segja,“ sagði Magnús í morgun. Hann sagði breytinguna nú hanga saman við breytinguna á Norðurlöndunum. „Það að þetta myndi gerast núna fyrir jól átti ég alls ekki von á en stundum gerast hlutirnir.“

BDSM er samheiti fyrir bindi-, drottnunar- og sadómasókistaleiki og munalosta.

Danir voru fyrstir norrænna þjóða til að taka BDSM-hneigðir af sjúkdómaskrá fyrir 20 árum. Svíar, Norðmenn og Finnar fetuðu í fótspor þeirra á árunum 2009 til 2012. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV