Báru kennsl á 103 ára líkamsleifar sem fundust í helli

13.01.2020 - 15:11
This undated composite sketch provided by Anthony Redgrave, courtesy of Lee Bingham Redgrave, shows Joseph Henry Loveless. A man whose headless torso was found in a remote Idaho cave 40 years ago has finally been identified as Loveless, an outlaw who killed his wife with an ax and was last seen after escaping from jail in 1916. Clark County Sheriff Bart May said Tuesday, Dec. 31, 2019, that the cold case, which his department has been working on periodically since 1979, will remain open because investigators don't yet know who killed Loveless. Still, they were able to notify one of Loveless' surviving relatives, an 87-year-old grandson, of his fate. (Anthony Redgrave/Courtesy of Lee Bingham Redgrave via AP)
 Mynd: AP
Borin hafa verið kennsl á líkamsleifar sem fundust í helli í Idaho í Bandaríkjunum 40 árum með hjálp lífsýnagagnabanka. Þær reyndust vera af Joseph Henry Loveless, sprúttasala og axarmorðingja sem talinn er hafa verið myrtur árið 1916.

Loveless sat í fangelsi í Idaho árið 1916, en slapp með því að fela sög í skónum sínum og saga í sundur rimlana á fangaklefanum. Nokkrum mánuðum síðar myrti hann sambýliskonu sína með því „að murka úr henni líftóruna með exi“, eins og það var orðað í bæjarblaðinu. Við útför konunnar sagði eitt af börnum hans að pabbinn myndi sleppa fljótlega, hann sæti aldrei lengi inni. Það reyndist rétt því hann beitti sömu brögðum og sagaði sér leið út úr fangelsinu.  

Fannst í grunnri gröf í helli

Ráðgátan um líkamsleifarnar hófst í lok ágúst árið 1979 þegar fjölskylda fann hauslausan búk manns í strigapoka grafinn í grunnri gröf í eldfjallahellakerfi í austurhluta Idaho. Tólf árum síðar, í lok mars 1991, fann ellefu ára stúlka uppþornaða mannshönd í sama hellakerfi. Við frekari uppgröft yfirvalda fundust síðan handleggur og tveir fótleggir vafðir í strigapoka. Höfuðið fannst aldrei þrátt fyrir mikla leit.

Í fyrra hóf Háskólinn í Idaho vinnu við að komast að því hver maðurinn var í samstarfi við DNA Doe Project, sem vinna með lögregluyfirvöldum að því að bera kennsl á líkamsleifar sem enginn hefur gert tilkall til. Erfðaefni var tekið úr fótlegg sem hafði varðveist óvenju vel, líklega vegna aðstæðna í hellinum.

Samantha Blatt, sérfræðingur í lífsýnum, segir í samtali við New York Times að hitastigið í hellinum, sem hafi verið um það bil þrjár gráður, kunni að hafa hægt á rotnun. Sokkur sem hefði fundist með líkamsleifunum hafi til að mynda verið alveg heill. 

Lífsýni úr líkamsleifunum var hlaðið upp í nokkra lífsýnagagnabanka og erfðafræðingar hófu leit að mögulegum ættingjum á lífi. Eftir nokkra mánuði fannst 87 ára karlmaður sem reyndist vera barnabarn Loveless.  Eftirlýsing á Loveless reyndist einnig hjálpa við að bera kennsl á hann því fötin sem hann var sagður hafa klæðst þegar síðast sást til hans reyndust vera eins og þau sem fundust með líkamsleifunum. 

Með elstu málum sem leyst eru með erfðavísum

Loveless virðist hafa dáið árið 1916 og er mál hans því líklega það elsta sem leyst hefur verið með því að bera kennsl á líkamsleifar með því að bera saman erfðaefni úr þeim við erfðaefni úr núlifandi fólki sem gefið hefur erfðaefni sitt í lífsýnagagnasöfn. Undanfarin ár hefur það færst í aukana að lögregluyfirvöld nýti sér framfarir í erfðavísindum til þess að leysa gömul sakamál, jafnvel þau sem hafa verið óleyst áratugum saman. 

Anthony Lukas Redgrave fer fyrir samtökunum DNA Doe Project, sem vinna með lögregluyfirvöldum að því að bera kennsl á líkamsleifar sem enginn hefur gert tilkall til. Hann segir þetta elstu líkamsleifarnar sem þau hafi borið kennsl á. „Hann lést fyrir 103 árum. Var fæddur árið 1870,“ segir hann í samtali við New York Times. 

Ekki er ljóst hversvegna Loveless var myrtur og grafinn í hellinum en Blatt hefur þá tilgátu að hefnd hafi þar ráðið för. Ættingjar konu hans kunni að hafa komið honum fyrir kattarnef. Þeir hafi haft til þess tækfæri því þeir voru á svæðinu til þess að sækja lík konunnar.