Barnamenningarhátíð í beinni

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV

Barnamenningarhátíð í beinni

09.04.2019 - 09:26

Höfundar

Í dag verður Barnamenningarhátíð 2019 sett með opnunarviðburði í Eldborgarsal Hörpu. Viðburðum verður streymt í beinni á vef KrakkaRÚV, en með útsendingunni er öllum börnum víðs vegar um landið gert kleift að fylgjast með.

Það er Múla sextettinn sem opnar dagskrána með hressu lagi frá New Orleans í Bandaríkjunum. Eftir að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur sett hátíðina með ávarpi stígur flautumaðurinn flippaði, Gabor Vosteen, á svið. Sirkuslistafólk og dansarar frá Dansskóla Brynju Péturs skemmta áhorfendum, en Jón Jónsson flytur að lokum einkennislag hátíðarinnar Draumar geta ræst. Lagið er samið í samstarfi við fjórðu bekkinga í Reykjavíkurborg sem flytja það á sviðinu með söngvaranum.

Dagskráin hefst klukkan 11.30 og hægt verður að fylgjast með í beinni á KrakkaRÚV. Kynnir er Sigyn Blöndal fjölmiðlakona.

Lífið er heimsins besta gotterí

Klukkan 14 verður streymt beint frá tónleikunum Lífið er heimsins besta gotterí, en þar syngja og leika 760 leikskólabörn lög eftir Jóhann G. Jóhannsson. Börnin hafa æft lögin síðan í febrúar og afraksturinn verður fluttur í Eldborgarsal við undirleik hátíðarhljómsveitar Tónlistarskóla Sigursveins. Aðgangur á tónleikana er ókeypis og allir velkomnir.

Upptakurinn 2019

Upptakturinn er orðinn árlegur menningarviðburður í borginni og er samstarfsverkefni Hörpu, Barnamenningarhátíðar, Listaháskóla Íslands og RÚV. Viðburðurinn hefst klukkan 17.30 í Silfurbergi og verður streymt beint frá honum á KrakkaRÚV og UngRÚV. Þar verða frumflutt, á metnaðarfullri og glæsilegri tónlistardagskrá, sérvalin tónverk eftir ungt og efnilegt tónlistarfólk. Verkin voru valin úr fjölmörgum innsendum lögum, en lögin hafa verið fullunnin með aðstoð tónskálda og fagfólks í tónlist. Öll verkin sem flutt verða á tónleikunum hljóta tónsköpunarverðlaunin; Upptaktinn 2019. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Aldrei og Heima

Klassísk tónlist

Upptakturinn kallar eftir tónverkum barna

Austurland

Brasað á Barnamenningarhátíð á Austurlandi

Menningarefni

Verðlaunaafhendingin SÖGUR í Hörpu