Það er góð og gegn hefð fyrir barnaplötum og við Íslendingar liggjum að sjálfsögðu ekki á liði okkar í þeim efnum. Bragi Valdimar og Memfismafían, Hrekkjusvínin, Dr. Gunni, Pollapönk o.s.frv., reglulega koma út skífur af þessum toga.
Snorri Helga á að baki nokkuð glæstan feril sem söngvaskáld, hvar hann hefur lagt sig eftir alþýðutónlist að enskum, bandarískum og íslenskum hætti (síðasta plata) og þetta barnatónlistarform liggur í raun nokkuð eðlilega fyrir honum mætti segja. Hér er vel í lagt og ekkert til sparað svo að upplifun geti orðið sem ríkulegust. Auk geislaplötu kemur út vegleg bók með teikningum eftir Elínu Elísabetu Einarsdóttur en um hönnun sá Bobby Breiðholt.
Tíu
Lögin eru alls tíu og eru þau flest, ásamt textum, eftir Snorra. Tekist er á við ýmis hversdagsmál sem steðja að jafn foreldrum sem börnum, en Snorri og eiginkona hans Saga Garðarsdóttir eru nýbakaðir foreldrar. Ýmislegt minnir á efnistökin á Gilligill og Karnivalíu, síðustu barnaplötum Braga Valdimars og félaga og Snorri er nokk hnyttinn, eins og opnunarlagið, „Kringlubarnið“ ber með sér, þar sem mamman þarf bara rétt að fara „inn og út“. Saga Garðars og Halldóra Geirharðsdóttir syngja það með bravúr. Flest laganna reyna að samþætta glettni og boðskap, sjá til dæmis „Á mölina“, lag í suðrænum gír hvar þeir Bubbi og Steingrímur Teague syngja saman. Textinn sumpart einlæg pæling um af hverju í ósköpunum fólk er að flytja úr sveitinni í borgina, eitthvað sem mörg borgarbörnin hafa efalaust velt fyrir sér þegar þau njóta friðsældar íslenskra sveita. Laginu er svo slaufað með grallaragríni, og Snorri passar vel upp á þetta jafnvægi, grín og alvara í bland (í poka).