Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Barnabókahöfundar á Íslandi í sjálfboðavinnu

Mynd: Rúv/Einkasafn / Rúv/Facebook

Barnabókahöfundar á Íslandi í sjálfboðavinnu

13.07.2017 - 12:20

Höfundar

Rithöfundurinn Margrét Tryggvadóttir sendi frá sér pistil nýverið, þar sem hún gagnrýnir stöðu barnabókaútgáfu á Íslandi. Hún metur stöðuna mjög slæma og segir Íslendinga vera einu Norðurlandaþjóðina sem ekki hafi brugðist við með stórtækum aðgerðum til að styðja við útgáfu barnabóka. Ævar Þór Benediktsson tekur undir þetta og segir ástandið vera alvarlegt.

Margrét Tryggvadóttir er öllum hnútum kunnug í barnabókmenntum, en sjálf er hún menntaður bókmenntafræðingur og með meistaragráðu í menningarstjórnun, auk þess að hafa stúderað og skrifað barnabækur sjálf. „Eins og við vitum þá eru Íslendingar ekki margir, það eru fáir sem tala íslensku, og við erum alltaf að tala um að íslenskan sé í hættu. Eitt af því sem við getum gert til að bjarga tungumálinu okkar, og að við séum hérna þjóð og eigum eitthvað sameiginlegt, er að viðhalda ritmálinu. Og það gerum við með bókum og bóklestri.“

Hún undirstrikar mikilvægi þess að fólk hefji lestur á barnsaldri. „Og lesendur verða ekki til fullskapaðir 25 ára, þeir þurfa að byrja að lesa þegar þeir eru börn. Og það er eiginlega frumforsenda þess að viðhalda ritmáli og tungumáli. Staðan á Íslandi er bara ekki góð.“ Hún segir að fjöldi frambærilegra höfunda sé ekki vandamálið, og auk þess séu margir metnaðarfullir útgefendur sem reyni á ári hverju að koma flottum bókum á markað. „En þetta ber sig ekki, það fæðast hérna 4000-5000 börn á ári, og það er ekki nóg til þess að standa undir barnabókarmarkaði.“

Mynd með færslu
 Mynd: pixabay - Pixabay
Íslenskur barnabókamarkaður stendur ekki undir sér.

„Við erum í sjálfboðavinnu“

Margrét segir höfunda sem skrifa fyrir börn nær alltaf koma út í tapi, og nefnir sem ástæður lágt söluverð, og þá staðreynd að oftar en ekki koma fleiri en einn höfundur að útgáfu hverrar bókar. Prósentugreiðslur þekkjast einnig í þessu sambandi. „Þannig að við erum meira og minna í sjálfboðavinnu, útgefandinn tapar á þessu líka. Við erum eina þjóðin á Norðurlöndum sem er ekki í stórtækum aðgerðum til þess að styðja við barnabækur. Hér á Íslandi fá sannarlega rithöfundar listamannalaun, og barnabókahöfundar líka, ekki allir, aldrei allir.“ Hún segir enga innviði innan kerfisins tryggja áframhaldandi styrkveitingar í þá veru. „Nefndin núna síðustu þrjú, fjögur árin hefur verið velviljuð og haft skilning á þessu. En svo kannski á næsta ári eða þarnæsta kemur ný nefnd og henni kannski finnst þetta ekki skipta neinu máli, og þá er ekkert í kerfinu sem tryggir að barnabókmenntir fái nokkurn styrk.“

Hún bendir á að þó að yfir 100 titlar komi út á ári, þá séu aðeins sex af þeim efni sem ætlað er börnum eða ungmennum. Hún segir það alls ekki vera nóg, og bendir á að ef unglingur sé duglegur að lesa þá sé hann búinn að lesa sig í gegnum alla nýja jólabókaútgáfu strax í febrúar. „Hugsið ykkur ef þetta væri svona fyrir okkur. Auðvitað fer hann [unglingurinn] í baklistann, hvað hefur komið út á síðustu árum, en þessar sex bækur sem koma út á ári, þær höfða aldrei til allra.“

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv/Einkasafn - Rúv/Facebook
Ævar Þór Benediktsson og Margrét Tryggvadóttir

„Þetta er mjög alvarleg staða“

Ævar Þór Benediktsson er vinsæll barnabókahöfundur, en að auki er hann mörgum kunnur úr sjónvarpi sem Ævar vísindamaður. Hann hefur verið ötull liðsmaður bókmenningar barna á Íslandi, og meðal annars staðið að lestarátaki fyrir íslensk börn og ungmenni. Hann tekur undir orð Margrétar. „Þetta er alveg hárrétt. Þetta er mjög alvarleg staða, eins og hún er núna.“ Hann tekur undir að rétt sé að líta til Norðurlandanna. „Það væri óskandi að við myndum leggja áherslu á að bjarga þessu á meðan það er ennþá hægt.“ Hann talar um breytingar á afþreyingarmynstri barna, og snjallsímavæðingu, sem hefur áhrif á bókalestur.

„Þú ert með heiminn í vasanum þegar þú ert með símann. Við vorum ekki með þessi æðislegu tæki [...]. Þannig að við gátum gleymt okkur í bókunum og lifðum í rauninni allt öðruvísi veruleika heldur en þau gera núna“. Hann segir mikilvægt að vekja athygli barna og ungmenna á bókalestri: „Við þurfum að minna á að bókin er spennandi, að bókin er skemmtileg. Bókin býður líka upp á það að þú býrð til sjálfur, og ýtir undir sköpunarkraft.“ Hann tekur jafnframt undir umræðu um kröpp kjör barnabókahöfunda, og segir bransann erfiðan. „Og tímakaupið er alls ekki hátt, ef það er tímakaup yfirhöfuð. Þannig að það er oft hugsjónafólk í þessu. Það þarf bara að styðja við bakið á þessari útgáfu.“

Mynd með færslu
 Mynd: ÆÞB - Lestrarátak Ævars
Kynningarefni fyrir Lestrarátak Ævars

Barnabækur í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Margrét telur að aukin útgáfa á nýju efni myndu efla unga lesendur. „Ég held að það sé ekki spurning.“ Hún segir sum bókasöfn ekki kaupa neinar nýjar bækur. „Þú lest ekki bara af því að þú þarft að lesa, þá gætirðu allt eins tekið mjólkurfernuna og lesið bara á hana, þú lest af því að þú hefur áhuga á einhverju.“
„Þetta er bara í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, ég er ekkert að finna þetta upp; það stendur bara: „Ríkið eða stjórnvöld eiga að tryggja það að barnabækur séu samdar og að þeim sé dreift“,“ segir Margrét. Hún segir lausnina annars vegar felast í því að gera fólki kleift að búa til bækurnar, bæði höfundum og útgáfum. „Hins vegar þarf að tryggja dreifinguna, og þá erum við með stofnanir, þar sem öll börn fara í frá tveggja ára til tvítugs, sem heita skólar. Og þar eiga að vera bókasöfn.“

Mynd með færslu
 Mynd: pexels

Íslenskir skólar án bókasafna

Margrét segir sum bókasöfn ekki kaupa neinar nýjar bækur, og bendir einnig á slæmt ástand í málefnum skólanna. „Orðið leikskólabókasafn, ég held að það sé ekki einu sinni til í íslensku, vegna þess að það er bara algjör hending hvað er til af bókum þar, það eru engin markviss innkaup. Það er í grunnskólalögum að það eigi að vera skólabókasöfn, en það stendur ekkert um starfsemina. Sumstaðar eru ekki bókasafnsfræðingar sem vinna þar og það er bara einhver skólaliði sem fer í Góða hirðinn, eða biður foreldra sem eru að taka til í geymslunni, um bækur.“

Hún bætir við að sumstaðar sé þessu vel sinnt, en ekkert tryggi íslenskum skólabörnum starfhæf skólabókasöfn, „þótt það sé í lögum að það eigi að vera skólabókasöfn.“

„Maður hefur einmitt verið að heimsækja skóla og hefur svolítið brugðið þegar maður kemst að því að það bara er ekki safn,“ segir Ævar. „Það er farið einu sinni í viku á eitthvað stærra safn sem er kannski þá í einhverjum kaupstað nálægt, en kennararnir segja við mann: „Við misstum bókasafnið okkar í fyrra“. Og það er bara gjörsamlega ömurlegt að það sé ekki hægt að ganga inn á bókasafn þegar þú ert búinn með bók og þig langar í aðra, og halda því járni heitu. Þannig að það er náttúrulega ömurleg þróun.“

Mynd með færslu
 Mynd: pexels

Norðmenn fyrirmyndir

Margrét segir rétt að líta til Noregs eftir fyrirmyndum í bókaútgáfu barnabóka. „Norðmenn eru að gera þetta langbest. Þeir eru að kaupa 1.480 eintök af öllum barnabókum sem koma út, nánast. Það er reyndar bara ein eftir hvern höfund og þær þurfa að ná máli, þeir kaupa ekki drasl. Þannig að þetta er ákveðinn gæðaþröskuldur sem þarf að fara yfir, sem er mjög jákvætt. Og þessu er bara dreift á opinber bókasöfn, bæði skólabókasöfn, leikskólabókasöfn og almenningsbókasöfn. Þannig að aðgengið er miklu meira.“

Hún segir að með norska kerfinu sé kominn grundvöllur fyrir höfunda. Öllum sem komast á slíkan samning sé tryggð upphæð sem samsvari rúmlega milljón íslenskra króna í laun fyrir bókina sína, „og útgefandinn fær líka tryggða söluávísun af tæplega 1.500 eintökum, sem er nóg til þess að bókasöfnin standi undir sér. Þá er eftir almenni markaðurinn, og bókasöfnin munu alltaf kaupa meira af vinsælu bókunum og allt það. En þarna ertu þó kominn með einhvern grunn.“ Hún segir að á Íslandi hafi höfundar ekkert slíkt, og höfundar þurfi í stað að treysta á hagnað af bókasölu kringum jól. „Það er það eina sem við höfum í raun af því að það er ekkert verið að kaupa bækur fyrir börn nema í desember, á Íslandi.“

epa01321898 Eight-year-old Bentje reads a children's boom in Pokrent, Germany, 21 April 2008. In 1995 the UNESCO installed the World Book and Copyright Day annually celebrated on 23 April to promote reading, publishing and the protection of
 Mynd: EPA

Sértæk listamannalaun fyrir barnabækur

Ævar kallar eftir umræðu um útgáfu barnabóka. „Nú er bara komið að því að maður má alveg vera leiðinlegur, setja hnefann í borðið og vekja athygli á þessu, af því að þetta skiptir gríðarlegu máli.“ „Þessar kynslóðir verða svo fullorðnar, og þá koma nýjar, og þær sjá sínar eldri kynslóðir ekki vera að lesa sér til gamans nema þegar þau nauðsynlega þurfa þess. Það er þróun sem við verðum að sporna við.“ Hann segir almenning verða að beita sér og reyna að hafa áhrif, og kallar jafnframt eftir aðgerðum stjórnvalda og fjölmiðla, „að fjalla meira um barnamenningu og barnabækur og setja meiri pening í þetta.“

Hann kemur einnig með tillögu að úrlausn mála og nefnir sem dæmi breytingu á veitingu listamannalauna. „Kannski væri hægt að taka ákveðna prósentu af ritlaunum til hliðar sem væru miðuð sérstaklega fyrir þau sem eru að skrifa fyrir börn og ungt fólk.“

Margrét Tryggvadóttir og Ævar Þór Benediktsson mættu í Síðdegisútvarp Rásar 2, miðvikudaginn 12. júlí 2017.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Engan tepruskap í barnabækur

Bókmenntir

Barnabækur frá jaðarsvæðum norðursins

Mannlíf

Barnabækur, bestu íslensku bækurnar

Bókmenntir

Þetta eru „bara“ barnabækur