
Læknirinn, Paolo Macchiarini frá Ítalíu, tók til starfa sem gestaprófessor og læknir við Karólínska sjúkrahúsið árið 2010. Ári síðar græddi hann, ásamt öðrum læknum, plastbarka þakinn stofnfrumum, í Erítreumanninn Andemariam Beyene sem þá var búsettur á Íslandi. Það var í fyrsta sinn sem það var gert. Beyene lést eftir erfið veikindi fyrr á þessu ári.
Þrjár aðgerðir rannsakaðar
Macchiarini hefur grætt gervibarka í tvo aðra sjúklinga, Bandaríkjamann og kóreska stúlku. Þau eru bæði látin. Fjórir læknar, sem tóku þátt í meðhöndlun sjúklinganna þriggja, lögðu fram kvörtunina í ágúst og aftur í september.
Bandaríska blaðið New York Times hefur afrit af kvörtuninni undir höndum og segir að hún sé vegna aðgerðanna á Beyene, Bandaríkjamanninum og öðrum sjúklingi sem þurfi að láta hreinsa öndunarveg sinn á fjögurra klukkustunda fresti.
Segir ásakanir tilhæfulausar
Kvartað er undan því að Macchiarini hafi aðeins fengið skriflegt samþykki Beyenes en ekki hinna sjúklinganna og þegar grein um aðgerðina á honum hafi verið birt á vef Lancet læknaritsins hafi verið fullyrt að allt hefði gengið vel þótt vandkvæði hefðu þá þegar verið komin í ljós.
Macchiarini sagði í samtali við New York Times að ásakanirnar væru tilhæfulausar. Niðurstöðum hefði ekki verið hagrætt og hann hefði fylgt öllum lögum og siðareglum. Macchiarini er nú að störfum í Krasnodar í Rússlandi þar sem hann gerði síðustu aðgerðir sínar.