Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Barkaaðgerðir til rannsóknar í Svíþjóð

27.11.2014 - 14:13
epa02267355 Thoracic surgeon Paolo Macchiarini during a press conference on two successful windpipe transplants carried out some weeks ago on two patients with trachea cancer in Florence, Italy, 30 July 2010.  The innovative procedure uses stem cells to
 Mynd:
Karólínska sjúkrahúsið í Svíþjóð hefur hafið rannsókn á ásökunum um að læknir sem græddi gervibarka í þrjá sjúklinga hafi ekki fengið siðanefndarsamþykki fyrir þeim. Þá hafi hann gefið rangar upplýsingar um niðurstöður einnar aðgerðarinnar í grein í virtu læknariti.

Læknirinn, Paolo Macchiarini frá Ítalíu, tók til starfa sem gestaprófessor og læknir við Karólínska sjúkrahúsið árið 2010. Ári síðar græddi hann, ásamt öðrum læknum, plastbarka þakinn stofnfrumum, í Erítreumanninn Andemariam Beyene sem þá var búsettur á Íslandi. Það var í fyrsta sinn sem það var gert. Beyene lést eftir erfið veikindi fyrr á þessu ári.

Þrjár aðgerðir rannsakaðar

Macchiarini hefur grætt gervibarka í tvo aðra sjúklinga, Bandaríkjamann og kóreska stúlku. Þau eru bæði látin. Fjórir læknar, sem tóku þátt í meðhöndlun sjúklinganna þriggja, lögðu fram kvörtunina í ágúst og aftur í september.

Bandaríska blaðið New York Times hefur afrit af kvörtuninni undir höndum og segir að hún sé vegna aðgerðanna á Beyene, Bandaríkjamanninum og öðrum sjúklingi sem þurfi að láta hreinsa öndunarveg sinn á fjögurra klukkustunda fresti.

Segir ásakanir tilhæfulausar

Kvartað er undan því að Macchiarini hafi aðeins fengið skriflegt samþykki Beyenes en ekki hinna sjúklinganna og þegar grein um aðgerðina á honum hafi verið birt á vef Lancet læknaritsins hafi verið fullyrt að allt hefði gengið vel þótt vandkvæði hefðu þá þegar verið komin í ljós.

Macchiarini sagði í samtali við New York Times að ásakanirnar væru tilhæfulausar. Niðurstöðum hefði ekki verið hagrætt og hann hefði fylgt öllum lögum og siðareglum. Macchiarini er nú að störfum í Krasnodar í Rússlandi þar sem hann gerði síðustu aðgerðir sínar.