Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Bárðarbunga hefur sigið um 60 metra

18.03.2015 - 11:51
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Askja Bárðarbungu sígur enn, en aðeins í kring um tvo sentimetra á sólarhring. Frá því umbrotin hófust hefur botn öskjunnar sigið um 60 metra. Mælingar sýna hins vegar ris en ekki sig á Bárðarbungu sjálfri það er á yfirborði jökulsins.

Risið nemur um einum og hálfum sentimetra á sólarhring. Ástæða rissins er sú að ís flæðir inn í öskju Bárðarbungu til að aðlaga sig siginu. Vísindamenn telja að þetta ris ætti að nema þremur til fjórum sentimetrum á sólarhring. Risið er hins vegar minna eins og áður sagði eða um einn og hálfur sentimetri. Mismunurinn er því sigið; í kringum tveir sentimetrar á sólarhring.

GPS mælirinn á Bárðarbungu virkar ekki sem stendur. Vísindamenn ná nákvæmustu mælingum með því að fljúga yfir í flugvél Isavia. Næst verður farið í mælingaflug eftir páska. Síðustu tvo sólarhringa hafa mælst 58 skjálftar í og við Vatnajökul, allir minniháttar og enginn stærri en þrír.

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV