Jarðskjálfti af stærðinni 3.2 varð í austanverðri Bárðarbunguöskjunni laust fyrir klukkan hálf fimm í morgun. Sigþrúður Ármannsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir þetta framhald óróans sem þarna hefur verið að undanförnu og ekki vita á neitt annað eða meira. Enginn gosórói er sjáanlegur, að hennar sögn. Sama á við um Öræfajökul, þar sem smáskjálftahrina hefur verið í gangi í sunnanverðri öskjunni síðan um ellefuleytið í gærkvöldi.