Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Baráttan tapast taki ríki ekki höndum saman

19.01.2020 - 19:51
Mynd: RÚV / RÚV
Ríki heims eru að tapa baráttunni gegn peningaþvætti, að mati sérfræðings í fjármálaglæpum. Norðurlönd séu í kjörstöðu til að taka forystu í peningaþvættisvörnum á heimsvísu.

Tom Kirchmaier, prófessor við viðskiptaháskóla Kaupmannahafnar, er einn helsti sérfræðingur Evrópu í peningaþvætti og hvítflibbaglæpum og hefur hann starfað með yfirvöldum og eftirlitsaðilum víða í álfunni. Að hans mati gengur baráttan gegn peningaþvætti illa. Engu ríki hafi tekist að koma upp nægjanlegum vörnum og eru smáríki sérstaklega berskjölduð. „Hvert leita þeir? Til smáþjóða, veikbyggðari stofnana; eru dálítið eins og vatnið, leita í minnstu fyrirstöðu sem þeir reyna svo að brjóta niður," segir Kirchmaier.

Nýtt vandamál á Íslandi

Kirchmaier segir veru Íslands á gráum lista FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti, endurspegla hversu nýtt vandamál peningaþvætti er á Íslandi. Íslendingar hafi í raun aldrei leitt hugann að vandamálinu og séu vanir því að treysta náunganum. Þetta eigi ekki bara við um Ísland heldur Norðurlönd í heild.

Kirchmaier segir raunar að FATF sé aldrei að fara að leysa vandann sem felst í peningaþvætti. Viðmið starfshópsins séu í sjálfu sér ágætis upphafspunktur en miklu meira þurfi að koma til. Fyrir lítil ríki eins og norrænu löndin sé samvinna lykilatriði.

Geta ekki unnið hvert í sínu horni

„Þið verðið að sætta ykkur við að þið eruð allt of smá í sniðum til að ráðast í þetta ein. Nú reyna allir að gera þetta af eigin rammleik og það má gefa sér að það mistakist nema að þið farið að vinna saman á hugkvæman hátt.

Norðurlöndin séu í rauninni í kjörstöðu til að taka forystu á heimsvísu. Gagnkvæmt traust ríki á milli landanna, upplýsingaskipti þegar mikil og þau búi yfir greinargóðum gagnagrunnum yfir þegna sína.„Þar sem þið eruð smá í sniðum og ráðið yfir góðum upplýsingum og hæfi fólki verður ykkur betur ágengt en öðrum.

 

Magnús Geir Eyjólfsson