Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Barátta gegn loftslagsbreytingum dýr

05.12.2015 - 12:20
Mynd með færslu
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. Mynd: RÚV
Erfiðlega gengur að fjármagna baráttuna gegn loftslagsbreytingum, segir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra sem staddur er á loftslagsráðstefnunni í París. Árangur í loftslagsmálum náist ekki án fjármagns til að vinna gegn mengun. Samningamenn í París skiluðu drögum að samkomulagi í dag.

Ráðherravika hefst á mánudaginn á loftslagsráðstefnunni. Þá setjast ráðherrar yfir drög sem samningamenn létu frá sér í gær. Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra fer út til Parísar á morgun. Vonast er til að hægt verði að ná samkomulagi um að stefna að því að hiti hækki ekki um meira en tvær gráður. Nokkur ríki hafa reynt að fá þessu breytt því láglendar eyþjóðir í hitabeltinu fara á kaf ef meðahliti í heiminum hækkar um meir en eina og hálfa gráðu. Gunnar Bragi segir að þetta hafi verið rætt.

„Við höfum svona fram að þessu haldið okkur við það að 2 gráður væri svona raunhæft að ná saman um en auðvitað ef hitt tekst þá styðjum við það að sjálfssögðu ef að menn geta náð saman um það en það er betra að vera raunsær í þessu og reyna þá að gera áætlanir sem hægt er að standa við."

Gunnar Bragi segir að það sé ljóst að illa gangi að ná árangri ef ekki fáist fjármagn til að vinna gegn mengunninni . Íslendingar hafi bent á það að gríðarlegir fjármunir fari í stuðning við jarðefnaeldsneyti.

„Það eru nú bara 14 og hálf billjón bandaríkjadala á dag sem fer í síka styrki. Það mætti færa eitthvað af því í græna styrki á móti en það er þungt að ná samkomulagi um fjármögnunina það er alveg hárrrétt."

Gunnar Bragi segir að mikil pressa sé á sem flest ríki að setja fjármagn í græna loftslagssjóðinn sem búið er að stofna. Íslendingar ætli að setja 1 milljón dollarar í hann á 5 árum. 

„Auðvitað erum við að þrýsta á aðra að leggja sitt af mörkum líka. Það er mjög mikilvægt að við náum eitthvað 100 milljónum bandaríkjadala í þennan sjóð það eru komnir ef ég man rétt milli 10 og 20 en það er ennþá langt í land."

 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV