Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Bara upptalning á athugunum og starfshópum“

29.11.2017 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/samsett mynd
Formenn tilvonandi stjórnarandstöðu eru misánægðir – eða öllu heldur misóánægðir – með það sem hefur kvisast út um efni stjórnarsáttmála væntanlegrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Sumt er ágætt en annað ekki, segir einn. Annar segir stjórnina ætla að standa vörð um gömul kerfi, sá þriðji hefur áhyggjur af því að fátæku fólki verði ekki hjálpað og sá fjórði að eitthvað merkilegra hljóti að eiga eftir að koma í ljós. Sá fimmti forðast að taka afstöðu fyrr en hann sér allan sáttmálann.
Mynd með færslu
 Mynd: Hreiðar - RÚV

Stjórn sem ætlar að standa vörð um gömul kerfi

„Í fyrsta lagi hef ég áhyggjur af því að tekjuöflunin nægi ekki til að standa undir þeim loforðum sem gefin voru um uppbyggingu í heilbrigðiskerfi, menntakerfi og kjör aldraðra og öryrkja,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

„Þá finnst mér skrýtið á þenslutímum séu menn að gefa loforð um að lækka tekjuskatt, og jafnvel á þann veg að þeir sem eru með hæstu launin, 800.000 og þar fyrir ofan, fái margfalt það sem tekjulægsta fólkið, sem er að lifa á 200 þúsundkalli fær,“ bætir hann við.

„Það er ekkert í þessum tillögum sem hefði ekki verið hægt að ná miklu betur fram fyrir Vinstri græn í mið-vinstristjórn og þetta virðist vera stjórn sem ætlar að standa vörð um gömul kerfi; sjávarútveg, landbúnað, háa vexti og vinna ekkert í stjórnarskránni, sýnist mér,“ segir formaður Samfylkingarinnar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV

Upptalning á athugunum, nefndum og starfshópum

„Ég held að það hljóti nú eitthvað merkilegra að eiga eftir að koma í ljós,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. „Það getur ekki verið að þau ætli að hafa þetta nákvæmlega eins og var búið að spá fyrir um – að þetta verði bara upptalning á athugunum og starfshópum og þverpólitísku samráði og hvítbókum og nefndum. Þau hljóta að koma með einhver atriði sem hönd á festir. En það er ekki komið enn neitt sem tíðindum sætir.“

Sigmundur gefur ekki mikið fyrir þær skattkerfisbreytingar sem greint hefur verið frá. „Miðað við það sem maður hefur heyrt af því virðist það fyrst og fremst snúast um að flækja skattkerfið frekar en einhverju tilfærslu til eða frá – hækkun eða lækkun – heldur er bara verið að jafna þetta út með því að flækja kerfið, væntanlega þannig að þeir sem eru til vinstri telji sig fá eitthvað og þeir sem eru til hægri telji sig fá eitthvað, en niðurstaðan verði sú sama nema flóknara kerfi,“ segir hann.

Spurður hvort hann deili áhyggjum af því að tekjuöflunarleiðir standi ekki undir fjárútlátum, segir Sigmundur: „Það virðist vera að menn séu að fara í það núna að taka peninga út úr bönkunum og nota þá í þessa innviðauppbyggingu. Þá er mjög sláandi að sjá að það er bara talað um tvo banka þar, Landsbankann og Íslandsbanka en ekki Arion banka og maður veltir því fyrir sér hvort það eigi bara að gefa það allt saman eftir og í stað þess að nýta fjármagn þaðan í innviðuppbyggingu eigi að nýta það í bónusgreiðslur í vogunarsjóðum í New York og London.“

Mynd með færslu
 Mynd: Hreiðar Þór Björnsson - RÚV

Stjórnarskráin mestu vonbrigðin

„Það eru blendnar tilfinningar,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata. „Það er ýmislegt ágætt þarna að finna eins og ýmsar tekjuöflunarleiðir sem okkur líst ágætlega á – hækkun fjármagnstekjuskatts, að gistináttagjaldið fari alfarið til sveitarfélaga og styrki þar með þeirra tekjustofn og lengra fæðingarorlof er að sjálfsögðu mjög jákvæð þróun,“ segir hún.

„Á móti kemur að helstu ágreiningsefni þessara þriggja flokka virðist eiga að afgreiða í nefnd. Þá er ég að tala um útlendingamálin, ég er að tala um stjórnarskrána – það eru að sjálfsögðu okkar stærstu vonbrigði að sjá að þar eigi bara að afgreiða málið í nefnd. Heilbrigðismálin virðast heldur ekki vera á tæru, hvort það eigi að halda áfram að einkavæða eða hvort við eigum aftur að renna stoðum undir þennan opinbera rekstur. Það vekur vissulega áhyggjur að þessi stærstu mál sem skipta okkur hvað mestu máli eigi að afgreiða í nefnd frekar en að taka þau föstum tökum í stjórnarsáttmála,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Inga Sæland formaður Flokks fólksins.
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV

„Það eru að koma jól“

„Ég sé að það á að losa sig við bankana okkar, í fyrsta lagi,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. „Í öðru lagi er, jú, gott og blessað og dásamlegt að það eigi að lengja fæðingarorlofið en ég sé ekkert þarna um hvernig eigi að bregðast við til að hjálpa fátæku fólki í þessu landi og ég get ekki séð neitt talað um það skelfingarástand sem er í samfélaginu, eins og þessa þrjátíu manns sem eru að frjósa úr kulda niðri í Laugardal. Það eru að koma jól,“ segir hún.

„Ég segi bara: ég vona að það sem hefur kvisast út úr þessum sáttmála sé bara partur af prógramminu og það sé miklu meira þarna inni sem lýtur að því að hjálpa þeim sem höllustum fæti standa í þessu samfélagi,“ segir Inga Sæland.

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV

Ástæða til að vera bjartsýn

„Ég held að það sé ekki rétt að taka afstöðu fyrr en heildarmyndin er komin fram,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. „Hins vegar er engin ástæða til annars en að óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar. Hún kemur að afskaplega góðu búi og það er engin ástæða til annars en að vera bjartsýn á framtíðina.“

Hún segir sumt af því sem greint hefur verið frá koma á óvart. „Miðað við þessar fréttir þá er eitt og annað sem kemur á óvart, satt best að segja, sumt er gott og annað ekki. Það er augljóst að þau eru að setja til hliðar erfið ágreiningsmál sín á milli en það er mjög erfitt að taka afstöðu til þessa fyrr en heildarmyndin liggur fyrir  og við fáum að heyra hvernig þau eru að hugsa þetta.“

Spurð hvort hún telji að stjórnin verði framsýn eða að kyrrstaða verði fólgin í sáttmálanum segir Þorgerður: „Við erum ekki búin að sjá sáttmálann – við vitum hvers eðlis flokkarnir eru, þetta eru íhaldsflokkar. Þetta eru frekar kyrrstöðuflokkar heldur en hitt, en á móti kemur að við erum ekki búin að sjá sáttmálann. Við verðum að veita þeim það tækifæri, bæði að kynna sáttmálann og innihaldið og leyfa þeim að segja þjóðinni hvernig þau eru að hugsa til framtíðar.“