Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Bannon er að reyna að eigna sér Trump-isma“

08.01.2018 - 09:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Bókin fellur í frjóan jarðveg, margir þreyttir á Trump og hans framkomu. Hvort hún hefur áhrif á þann kjarnahóp sem stendur með honum öðruvísi en að fólk fylki sér enn frekar á bak við hann,“ segir Silja Bára Ómarsdóttir, stjórnmálafræðingur um bók Michael Wolff, Fire and Fury, sem fjallar um fyrsta ár Trumps í embætti Bandaríkjaforseta. Silja segir að samkvæmt bókinni sé Bannon, fyrrverandi aðalráðgjafi Trump sé að eigna sér Trump-isma.

Silja segir að bókin sýni mjög vel að Trump og hans fólk hafi verið illa undirbúið og ekki haft þekkingu á kerfinu. „Wolff bendir á ýmsa hluti í fari Trump sem útskýra eða varpa ljósi á af hverju ákveðnir hlutir ganga svona hægt. Hvort bókin hafi beinlínis áhrif á að þingið muni reyna að kæra hann fyrir embættisbrot það er mjög ólíklegt sko," segir Silja sem var gestur Morgunútvarpsins í morgun.

Stephen Bannon, fyrrverandi aðalráðgjafi Trumps, hefur dregið ummæli sem höfð eru eftir honum í bók Wolff til baka. Silja segir að í bókinni sé verið að gefa til kynna að Bannon sjái sjálfan sig sem forsetaframbjóðanda árið 2020. „Bannon er að reyna að eigna sér Trump-isma, eins og honum er lýst í bókinni. Þó að hann hafi farið út úr hvíta húsinu þá standi hann ennþá fyrir efnahagslegu þjóðernishyggju. Sem að hann var að reyna að láta Trump standa fyrir og stór hluti kjósanda Trumps studdi hann út af því. Með þessu er Bannon er að tryggja sína eigin stöðu. Wolff gefur til kynna að Bannon sjái sjálfan sig jafnvel sem forsetaframbjóðanda árið 2020,“ segir Silja. 

Vantar umræðu um spillingu

Silja segir að í bók Wolff vanti umræðu um spillingu og greiningu á til dæmis viðskiptatengslum Trumps, og annarra í kringum hann. „Trump hafði hugsað sér að setja á fót sjónvarpsstöð, þar sér hann völd. Hann telur að sýnileiki og fjölmiðlar séu þar sem völdin liggja en ekki stjórnmálin. Þessi áætlun eins og Wolff setur hana fram þjónar Trump sérstaklega vel, vegna þess að þetta lætur hann líta út fyrir fávísan frekar en spilltan, en spillingin er óumdeilanleg. Umræðu um hana vantar algjörlega í þessa bók. Það að Wolff sé slúðurfréttamaður veikir greiningu sem maður myndi vilja sjá. Það er ekki áhersla á þessi viðskiptatengsl sem eru svo áberandi í öllum hans rekstri. Fréttirnar um helgina sem hafa ekki fengið nærri því jafn mikla umfjöllun um það til dæmis að Kushner hefur aukið viðskipti sín við ísraelsk fyrirtæki og ísraelsk fyrirtæki hafa verið að fjárfesta gífurlega mikið í Kushner fjölskyldunni upp á síðkastið. Þetta hverfur vegna þess að við erum alltaf að tala um hvað Trump sé mikið fífl,“ segir Silja.