Bannað verður að hirða fisk úr Elliðaánum

04.12.2019 - 18:12
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Einungis verður heimilt að veiða á flugu í Elliðaánum á næsta ári og verður veiðimönnum skylt að sleppa öllum laxi sem veiddur er. Stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur hefur ákveðið þetta eftir að niðurstöður rannsóknar á laxastofni Elliðaánna voru kynntar fyrir stjórn félagsins.  

Fiskifræðingar Hafrannsóknarstofnunar rannsökuðu vöxt og viðgang stofnsins, þróun yfir áratuga langt tímabil, fjölda gönguseiða, veiðihlutfall og fleira.  

Stjórn félagsins segist ekki geta setið hjá þegar hætta steðjar að hinum einstaka laxastofni Elliðaánna. „Það er stór ákvörðun að breyta hátt í aldargamalli veiðihefð og því hefur sú ákvörðun verið tekinn af vel ígrunduðu máli, þar sem stjórnin naut liðsinnis árnefndar Elliðaánna, vísindamanna og ráðfærði sig við fulltrúaráð félagsins. Með hliðsjón af núverandi stöðu laxastofns Elliðaánna og þeim vísindalegu ráðleggingum sem stjórn félagsins hefur aflað hefur verið tekin sú ákvörðun að sleppa skuli öllum veiddum laxi. Frá og með næsta sumri verður því einungis heimilt að veiða á flugu í Elliðaánum og öllum fiski skal sleppt,“ segir á vef félagsins. 

Stjórn félagsins segist treysta því að félagsmenn sýni þessari ákvörðun skilning.
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi