Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bann við mismunun lögfest á Alþingi

12.06.2018 - 15:06
Business hands joined together teamwork
 Mynd: Stocksnap
Frumvarp félagsmálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, um bann við mismunun á grundvelli kynþáttar eða þjóðernisuppruna á öllum sviðum samfélagsins var lögfest á Alþingi í gær. Þá verði til dæmis óheimilt að birta auglýsingar sem teljast megi einstaklingum af ákveðnum kynþáttum eða þjóðernisuppruna til minnkunar eða lítilsvirðingar. 

Á sama tíma var samþykkt frumvarp um bann við hvers konar mismunun, beinni eða óbeinni, á vinnumarkaði á grundvelli „kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar.

Sérstaklega er tekið fram í frumvarpinu að með notkun á hugtakinu kynþáttur felist ekki viðurkenning á þeirri vísindalegu afsönnuðu kenningu um skiptingu mannskyns í ákveðna kynþætti. Eingöngu sé vísað til „skiptingar fólks í hópa eftir kynþætti sem sögulega séð hefur verið mikilvægt og miðast við að unnt sé að vísa til líffræðilegra þátta, svo sem litarháttar og/eða annarra útlitseinkenna sem oft eru talin einkennandi fyrir tiltekinn kynþátt.“

Frumvörpin voru samin með hliðsjón af sambærilegum reglugerðum Evrópusambandsins og EES um jafna meðferð. Jafnréttisstofa hefur þá heimild til þess að beita dagsektum þau fyrirtæki og stofnanir sem uppvís verða að alvarlegum brotum á löggjöfinni. Bæði frumvörp taka gildi þann 1. september næstkomandi. 

Stjórnvöld hvött til frekari aðgerða 

Fjölmörg samtök höfðu lagt fram umsagnir við frumvörpin þar sem þau lýstu yfir stuðningi sínum við lögfestingu banns á slíkri mismunun, meðal annars BSRB og Alþýðusamband Íslands. Önnur lýstu einnig yfir stuðningi en hvöttu stjórnvöld til frekari aðgerða svo raunverulega megi upræta hvers konar mismunun í íslensku samfélagi, sér í lagi hvað varðar réttindi fatlaðs fólks. 

Landssamtökin Þroskahjálp mælast til þess að komið verði á fót sjálfstæðri mannréttindastofnun sem framfylgja myndi þeim alþjóðlegu mannréttindasáttmálum sem Ísland er aðili að. Öryrkjabandalag Íslands leggur þá til að orðalag reglugerða sé skýrt frekar og gengið sé úr skugga um að það sé að öllu leyti í samræmi við lög EES. 

Rauði kross Íslands og Samtök kvenna af erlendum uppruna telja einnig mikilvægt að óheimilt verði að mismuna fólki á grundvelli tungumáls, líkt og lögfest er í Noregi, sérstaklega þar sem margir innflytjendur á Íslandi koma frá Austur-Evrópu og skera sig helst úr á þeim grundvelli.