Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Bankarnir einu líklegu kaupendurnir

20.08.2011 - 12:14
Vilhjálmur Bjarnason, lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Félags fjárfesta, telur litlar líkur á því almennir fjárfestar sýni stofnfjárhlutum í Sparisjóði Norðfjarðar áhuga, bankarnir séu einu líklegu kaupendurnir.

Sem kunnugt er samþykkti stjórn sjóðsins á fundi í vikunni að bjóða allt stofnfé í sjóðnum til sölu. Vilhjálmur segir að stjórnvöld geri söluna erfiðari með áformum sínum um sérstakan skatt á fjármálastofnanir, en ríkið á tæplega helmingshlut í Sparisjóði Norðfjarðar.

"Ég tel alveg fráleitt að almenningur hafi áhuga á að kaupa litla sparisjóði úti á landi, hvort heldur það er á Norðfirði ellegar á Dalvík," segir Vilhjálmur. "Þessir tveir sjóðir hafa nánast verið auglýstir til sölu en ég sé ekki aðra kaupendur en þá banka sem fyrir eru í landinu. Og það er kannski erfitt að fara að bjóða þá til sölu þegar er verið að hóta sérstökum bankasköttum, þá náttúrulega stækkar ekki kaupendahópurinn. Þannig að menn verða nú að gera sér grein fyrir því hvaða starfsskilyrði fjármálafyrirtæki á Íslandi búa við um ókomin ár."