Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Bankar rannsakaðir í FIFA máli

24.07.2015 - 00:57
Erlent · fifa
epa04775282 The chair of FIFA President Joseph Blatter during a press conference following the FIFA Executive Committee meeting in Zurich, Switzerland, 30 May 2015. Blatter was elected FIFA president for a fifth term during the 65th FIFA Congress on 29
 Mynd: EPA - KEYSTONE
Rannsakendur í spillingamáli Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, kanna nú hvort spilltir fjármunir hafi farið í gegnum nokkra af stærstu bönkum heims. Credit Suisse, Deutsche Bank og HSBC eru á meðal þeirra sem eru til rannsóknar.

Rannsakendur telja að innra eftirlit bankanna hafi ekki tekið eftir vafasömum millifærslum þeirra sem hafa verið handteknir vegna spillingarmála innan FIFA. Talsmaður HSBC sagði í tilkynningu til fjölmiðla að bankinn væri að rannsaka mál innan hans sem vörðuðu stjórnendur FIFA og aðra, til þess að vera vissir um að þjónusta þeirra hafi ekki verið misnotuð í glæpsamlegum tilgangi.
Á meðal annarra banka sem eru til rannsóknar eru Barclays, Standard Chartered, Bank Hopoalim í Ísrael og Delta National Bank í New York.

Charlie Scharf, stjórnarformaður VISA, eins stærsta styrktaraðila FIFA, lýsti áhyggjum sínum yfir stöðu mála hjá sambandinu í dag. Hann segir tvennt þurfa að gerast til þess að stofnunin geti orðið trúverðug á nýjan leik.
Í fyrsta lagi verði að setja á stofn óháða nefnd sem endurskoðar vinnureglur sambandsins og nauðsynlegt sé að skipta um stjórnendur til þess að einhverjar umbætur á stjórnarháttum geti átt sér stað.