Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bandarískar loftárásir og tyrkneskir læknar í Sómalíu

30.12.2019 - 02:26
epa08093882 One of the victims is carried to be evacuated by Turkish military plane in Mogadishu, Somalia, 29 December 2019, a day after a deadly bombing killed some 90 people including two Turkish nationals. Somali government said ten badly injured Somalis are to be evacuated to Turkey for treatment. Turkey has been a major aid provider in Somalia.  EPA-EFE/SAID YUSUF WARSAME
Lífshættulega slasað fórnarlamb bílsprengjuárásarinnar í Mogadishu á laugardag borið um borð í tyrkneska herflutningavél á sunnudag. Vélin flutti 10 alvarlega særðar manneskjur til Tyrklands, þar sem gera á að sárum þeirra. Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkjaher gerði í kvöld loftárásir á tvennar bækistöðvar hryðjuverkasamtakanna al-Shabaab í Sómalíu, til að hefna fyrir mannskætt hryðjuverk sem framið var í Mogadishu á laugardag. Fyrr í dag lentu 24 tyrkneskir læknar í Mogadishu til að aðstoða við aðhlynningu þeirra sem særðust í hryðjuverkaárásinni.

90 féllu í hryðjuverkaárás

Í tilkynningu frá Afríkudeild Bandaríkjahers segir að „fjórir hryðjuverkamenn" hafi verið drepnir í þremur loftárásum á tvö skotmörk. Þar segir enn fremur að árásirnar, sem voru gerðar daginn eftir hryðjuverkaárás í höfuðborginni Mogadishu sem kostaði nær 90 mannslíf, hafi verið gerðar í samráði við ríkisstjórn Sómalíu.

800 drepin í 110 loftárásum

Bandaríkjaher hefur fjölgað mjög loftárásum á vígasveitir al-Shabaab í Sómalíu síðan Trump Bandaríkjaforseti setti suðurhluta landsins á lista yfir virk átakasvæði. Í tilkynningu frá Afríkudeild Bandaríkjahers í apríl á þessu ári kom fram að þá höfðu yfir 800 manns  verið drepnir í 110 loftárásum frá 2017, og tíðni árásanna hefur aukist umtalsvert síðan.

al-Shabaab hefur ekki lýst illvirki laugardagsins á hendur sér en öll bönd berast að samtökunum, sem hafa margoft framið hliðstæð voðaverk.

Tyrkir mættu með lækna og sjúkrahúsbúnað

Nokkru áður en Bandaríkjaher gerði loftárásir sínar á sunnudag lenti tyrknesk herflutningavél á Mogadishu-flugvelli með 24 lækna, sjúkrahúsbúnað, lyf og annað sem til þarf við umönnun þeirra um það bil 130 manneskja sem særðust í hryðjuverkinu á laugardag. Tíu úr þeirra hópi, sem hlutu lífshættulega áverka, voru flutt til Tyrklands til frekari aðhlynningar. 

Minnst tveir tyrkneskir ríkisborgarar dóu í hryðjuverkinu, en Tyrkir hafa verið á meðal leiðandi þjóða í hjálparstarfi í Sómalíu allt frá því að hungursneyð geisaði þar árið 2011. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV