Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bandaríkjamenn vilja fjárfesta á norðurslóðum

23.05.2019 - 23:05
Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Ísland tók þátt í sínum fyrsta viðburði sem tengist formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók þátt í ráðstefnunni sem var um viðskipti á norðurslóðum. Aðalefni ráðstefnunnar var formennska Íslands í ráðinu og efnahagshvatar og fjárfestingar á norðurslóðum.

Guðlaugur Þór hélt ræðu um áætlun Íslands í formennsku á fundinum og sagði rauða þráðinn vera sjálfbæra þróun að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins. Hann sagði Ísland leggja mikla áherslu á sterk samfélög, öflugan efnahag og umhverfisvernd. 

Fram kemur í frétt á vef Stjórnarráðsins að mikill áhugi sé á fjárfestingum á norðurslóðum í Bandaríkjunum. Undanfarin fimm ár hafi rúmur þriðjungur erlendra fjárfestinga á Íslandi komið þaðan. Þá sé áætluð fjárfestingarþörf á norðurslóðum um eitt þúsund milljarðar Bandaríkjadala. 

Fundurinn var haldinn í sendiráði Íslands í Washington og bar hann yfirskriftina Doing Business in the Arctic. Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu þann 7. maí síðastliðinn. 

helenars's picture
Helena Rós Sturludóttir
Fréttastofa RÚV