Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Bandaríkjaher skoðar mögulega endurkomu

10.09.2015 - 17:35
An aerial view of the ramp areas and facilities of the 57th Fighter Interceptor Squadron, with other facilities in the background.
Loftmynd af varnarliðssvæðinu frá árinu 1982. Mynd: Michael E Daniels - Film/wikmedia
Bandarísk stjórnvöld hafa viðrað þá skoðun við íslensk yfirvöld að í ljósi breytts öryggisumhverfis gæti verið ástæða fyrir Bandaríkjamenn að auka viðveru bandarísks liðsafla hér á landi. Engar viðræður hafa þó átt sér stað milli ríkjanna tveggja.

Þetta kemur fram í skriflegu svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu.

Work skoðaði flugskýli í Keflavík  

Björn Bjarnason, fyrrverandi dóms-og kirkjumálaráðherra, birti frétt á vefnum Varðberg þar sem hann vísar í viðtal við Bob Work, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna sem var tekið þegar Work var á leiðinni til Íslands.

Viðtalið við Work var á vefnum Defense Work í þessari viku. Þar segir hann að Ísland hafi áhyggjur af Rússlandi - orrustuþotur þeirra fljúgi nálægt íslenskri lofthelgi og að Ísland hafi áhuga á aukinni varnarsamvinnu.

Í viðtalinu segist Work hafa talað en líka hlustað á íslenska embættismenn. Work skoðaði á ferði sinni flugskýli sem notuð voru fyrir P-3 Orion flugvélar bandaríska hersins á tímum kalda stríðsins í Keflavík.  

Hafa sinnt mikilvægu varnarhlutverki

Hann nefnir það í viðtalinu að hugsanlega yrði hægt að nota skýlin fyrir P-8A Poseidon eftirlitsflugvélar bandaríska hersins. „Ég vil sjá þessi skýli og ganga úr skugga um að við getum komið þeim aftur í notkun ef til þess kemur,“ er haft eftir Work í viðtalinu - einu lagfæringarnar sem þyrfti að gera væru að skera bitann fyrir ofan hurðina á skýlinu til að stélið á Poseidon-vélunum kæmist fyrir.

Utanríkisráðuneytið segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að á umræddum fundi Work og Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, hafi Gunnar Bragi lagt á það áherslu að viðeigandi varnarbúnaður væri til staðar á Íslandi. „Og að íslensk stjórnvöld hafi sinnt mikilvægi varnarhlutverki frá brottför varnarliðsins.“ segir í svari ráðuneytisins.

Frumkvæðið ekki frá Íslandi

Enn fremur er tekið skýrt fram að íslensk stjórnvöld hafi ekki haft frumkvæði að því að ræða varanlega staðsetningu bandarísks liðsafla á Íslandi „og viðræður þess efnis eiga sér ekki stað á milli ríkjanna.“

Í svarinu segir hins vegar að það hafi komið fram í samtölum við Bandaríkjamenn „það sjónarmið að í ljósi breytts öryggisumhverfis gæti verið ástæða fyrir bandarísk stjórnvöld að auka viðveru bandarísks liðsafla á Íslandi. Ráðherra hefur ekki sjálfur haft frumkvæði að því að reifa slík atriði.“

Fréttastofa hefur sent fyrirspurn á varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna - henni hefur ekki verið svarað.

Framlög til varnarmála aukin um 213 milljónir

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, sem kynnt var í vikunni, er lagt til að framlög til varnarmála verði aukin um 213 milljónir. „Rík áhersla hefur verið á að bandalagsríki NATO auki framlög sín til sameiginlegra varna bandalagsins, sérstaklega í ljósi þróunar í öryggismálum í Evrópu,“ segir í fjárlagafrumvarpinu.

Þetta aukna framlag á meðal annars að fara til þess að koma gistiríkjastuðningi við loftrýmisgæslu í fyrra horf.  Og að fjölga borgarlegum sérfræðingum undir merkjum NATO úr fimm í tíu. „Mikil eftirspurn er eftir sérfræðiþekkingu Íslendinga svo sem á sviði almannavarna, sprengjuleitar, vefvarna, jafnréttismála, upplýsingamiðlunar og öryggis á hafi.“ 

Hafa áhyggjur af Austur-Evrópu

Andrúmsloftið milli Rússlands og Bandaríkjanna hefur verið við frostmark eftir átökin í Austur-Úkraínu.  Í júní tilkynntu bandarísk yfirvöld að þau hygðust styðja við heri í Evrópu vegna stöðunnar sem upp væri komin í Úkraínu.

Íslensk stjórnvöld hafa stutt refsiaðgerðir Bandaríkjanna og Evrópusambandsins gegn Rússum. Sá stuðningur varð til þess að Rússar settu viðskiptabann á vörur frá Íslandi fyrir skömmu.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV