Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bandaríkin senda herafla til Sádi Arabíu

20.09.2019 - 23:41
epa07824765 US Defense Secretary Mark Esper speaks during a press conference with his French counterpart Florence Parly (not pictured) after their meeting in Paris, France, 07 September 2019.  EPA-EFE/CHRISTOPHE PETIT TESSON
 Mynd: epa
Bandaríkin senda á næstunni liðsauka til Sádi Arabíu, þar sem fyrir eru allt að eitt þúsund bandarískir hermenn. Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, staðfesti þetta í dag og sagði liðsaukann sendan að ósk stjórnvalda í Sádi Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum, eftir að tvær stórar olíuvinnslustöðvar voru eyðilagðar í drónaárásum fyrir skemmstu.

Ekki hefur verið gefið upp hversu marga hermenn senda skal til Sádi Arabíu en Joe Dunford, formaður herforingjaráðs Bandaríkjahers, segir þetta ekki verða fjölmennt lið; hermennirnir verði taldir í hundruðum fremur en þúsundum.

Um 500 bandarískir hermenn voru sendir til Sádi Arabíu í sumar, ásamt orrustu- og sprengjuþotum, eldflaugavarnakerfi og öðrum hátæknihergögnum, og áður hafði Bandaríkjastjórn sent um 2.000 manna lið, meðal annars heila flotadeild, til Persaflóa og Persaflóaríkja, með það eina markmið að sýna Írönum mátt og megin Bandaríkjahers.

Þótt uppreisnarmenn í Jemen hafi lýst árásinni á olíustöðvarnar í Sádi Arabíu á hendur sér saka stjórnvöld í Riyadh og Washington Írana um að bera ábyrgð á henni.