Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bandaríkin og Brasilía á sömu blaðsíðu

31.08.2019 - 04:55
epaselect epa07800364 View of a burned forest in San Jose de Chiquitos, in Bolivia, 28 August 2019. Some 1,200 species of animals that live in the dry Chiquitano forest of Bolivia have been threatened by fires in that area in the east of the country, where the fire has consumed thousands of hectares of forest and grassland, leaving wildlife at the mercy of the hunters.  EPA-EFE/MARTIN ALIPAZ
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Utanríkisráðherra Brasilíu, Ernesto Araujo, segir Bandaríkin og Brasilíu á sömu blaðsíðu varðandi eldana í Amazon regnskóginum. Araujo átti fund með Bandaríkjaforseta, sem hann segir hafa sýnt því fullan skilning að Brasilía vilji ekki að önnur ríki skipti sér af því hvernig Brasilía tekst á við framtíð skógarins. 

Ástæða ummælanna er vaxandi gremja Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu, út í Evrópuríki, þá sérstaklega Frakkland. Honum þykir þau hnýsast um of í það sem hann segir vera innanríkismál Brasilíu. Bolsonaro sagði í gær að Evrópuríki geti ekkert kennt Brasilíu varðandi umhverfisvernd. Hann hefur áður sakað Frakkland og Þýskaland um að kaupa sjálfsákvörðunarrétt Brasilíu eftir samþykkt G7 ríkjanna um að bjóða 20 milljónir dollara til aðstoðar við baráttuna gegn eldsvoðana í Amazon. Hann sagðist ekki ætla að þiggja peninginn nema hann fengi afsökunarbeiðni frá Emmanuel Macron, forseta Frakklands. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði á miðvikudag að Bandaríkin geri hvað þau geti til að aðstoða Brasilíu við slökkvistörf. Þá gagnrýndi hann leiðtoga G7 ríkjanna, hverra hann er meðal, fyrir að hafa ekki ráðfært sig við Bolsonaro áður en Brasilíu var boðin fjárhagsaðstoð.

Bic pennar ekki lengur á borði Bolsonaro

Bolsonaro er sérlega ósáttur við ummæli sem Macron lét falla á leiðtogaráðstefnu G7 ríkjanna í síðustu viku. Þar sagði Macron að skógareldarnir væru alþjóðlegt vandamál, og sakaði hann Bolsonaro um að ljúga til um aðgerðir Brasilíu til að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Bolsonaro brást reiður við og sakaði Macron um að hafa sýnt af sér tilburði sem helst væri hægt að kenna við heimsvaldastefnu. Bolsonaro tilkynnti svo í gær að hann ætli ekki lengur að nota penna frá franska framleiðandanum Bic til að undirrita neitt. Brasilísku Compactor pennarnir verða notaðir af forsetanum þess í stað.

60 daga bann íkveikjubann tók gildi í Brasilíu á fimmtudag samkvæmt skipun Bolsonaro. Þann sama dag fundust 2.300 nýir eldar í landinu, þar af langflestir í Amazon. Alls hafa fundist yfir 87 þúsund eldar í skóglendinu, sem er það mesta síðan 2010. Þá voru ríflega 132 þúsund eldar kveiktir.