Bandaríkin banna vopnasölu til Suður-Súdans

04.02.2018 - 07:06
epa04021150 South Sudan's soldiers stand guard in Mvolo County, Western Equatoria State, South Sudan, 14 January 2014. According to local media sources, 13 men turned themselves to authorities in Mvolo claiming they are dissident fighters from the
 Mynd: EPA
Bandaríkjastjórn ákvað á föstudag að banna vopnaflutning til Suður-Súdans. Er bannið sagt til merkis um að þolinmæði ríkisins vegna átaka í Suður-Súdan sé á þrotum, að sögn Wall Street Journal. 

Ákvörðun Bandaríkjanna er að mestu leyti táknræn því ríkin eiga nánast engin vopnaviðskipti, og Bandaríkin veita Suður-Súdönum enga hernaðaraðstoð. Bandaríkin leita hins vegar eftir því að alhliða vopnasölubann verði samþykkt innan Sameinuðu þjóðanna. Heather Nauert, talskona utanríkisráðuneytisins, segir skilaboð Bandaríkjanna vera skýr. Hvorki Bandaríkin né önnur ríki heimsins ætli að standa aðgerðarlaus hjá á meðan almennir borgarar eru stráfelldir í Suður-Súdan.

Skýrsla Sameinuðu þjóðanna sýnir að stjórnvöld í Suður-Súdan halda áfram að nota olíusjóð ríkisins til vopnakaupa, þrátt fyrir að mannúðarmálum sé verulega ábótavant í landinu. Vopn eru sögð flæða yfir landamærin frá Úganda. 
Bandaríkjastjórn reyndi að afla stuðnings innan Sameinuðu þjóðanna um alþjóðlegt vopnasölubann árið 2016. Tilskipun þess efnis var hins vegar hafnað. Bandaríkin tóku þátt í að aðstoða Suður-Súdan við að öðlast sjálfstæði frá Súdan árið 2011 eftir áratuga átök. Síðan þá hafa vopnaðir hópar svarinna pólitískra andstæðinga, forsetans Salva Kiir og fyrrverandi varaforsetans Riek Machar, kljáðst sín á milli.

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, óskaði eftir stuðningi annarra aðildarríkja við vopnasölubanni í liðinni viku. Benti hún á að það væri ekki refsing gagnvart ríkinu, heldur eitthvað sem alþjóðasamfélagið gæti gert í þágu almennra borgara í Suður-Súdan.

Wall Street Journal hefur eftir Ateny Wek Aten, talsmanni stjórnvalda í Suður-Súdan, að bandaríski sendiherrann verði kallaður á fund stjórnvalda til að skýra afstöðu Bandaríkjanna.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi