Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Bandalag Viðreisnar og Bjartrar framtíðar gott

29.11.2016 - 10:22
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Guðmundur Steingrímsson fyrrverandi formaður Bjartrar Framtíðar og fyrrverandi alþingismaður segist ánægður með samstarf og bandalag Bjartrar Framtíðar og Viðreisnar í stjórnarmyndunarviðræðum. Flokkarnir eigi mjög margt sameiginlegt.

Skynsamlegt að mynda bandalag

Þetta kom fram í viðtali Óðins Jónssonar á Morgunvaktinni á Rás 1 við Guðmund. Hann sagði að alltaf hefði legið ljóst fyrir í aðdraganda og við stofnun Bjartrar framtíðar að flokkurinn væri frjálslyndur.  „Og núna varð til annar frjálslyndur flokkur, sem er kannski örlítið hægra megin við okkur. Engu að síður er hann með sömu áherslur og við erum með. Og mér finnst alveg skynsamlegt að mynda bandalag með þeim flokki fyrst að traust myndaðist og til þess að reyna að stækka þessi gildi, stækka þessa frjálslyndu miðju" segir Guðmundur.

Veit ekki hvort flokkarnir ætli að sameinast

Hann segir að Björt framtíð sé frjálslyndur, grænn miðjuflokkur og það sé ekkert verið að draga það neitt í efa. „Það getur vel verið að þetta verði breið miðja með meiri skírskotun bæði til hægri og vinstri. Það er lengi búið að vera tómarúm á miðjunni vegna þess að Framsóknarflokkurinn fór í ferðalag með Sigmundi Davíð í einhverjar þjóðernispópúlískar áttir og skildi miðjuna eftir. Samfylkingin fór í ferðalag með Vinstri grænum dálítið langt til vinstri. Þannig að það er bara mjög skynsamlegt að reyna að mynda einhverja breiða fylkingu um frjálslynda miðju án þess að ég viti hvort þessir flokkar ætli að sameinast eða ekki".

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV