Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ban samþykkti umsóknir Palestínumanna

11.04.2014 - 08:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur fallist á aðild Palestínumanna að 13 alþjóðasáttmálum. Talsmaður framkvæmdastjórans greindi frá þessu í gær og sagði að Ban hefði tilkynnt þetta öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna.

Stjórnvöld í Sviss hafa einnig samþykkt aðild Palestínumanna að Genfarsáttmálanum. Ísraelska blaðið Haaretz segir að Palestínumenn fái formlega aðild að þessum sáttmálum 2. maí, 30 dögum eftir að umsóknir þeirra bárust. Þegar Ísraelsmenn stóðu ekki við loforð um lausn palestínskra fanga í síðasta mánuði svöruðu Palestínumenn með því að leggja inn umsóknir um aðild að 15 alþjóðasáttmálum og stofnunum, 13 hjá Sameinuðu þjóðunum, einni í Genf og annarri í Hollandi.

Palestínumenn eru með þessu að sækjast eftir aukinni viðurkenningu á sjálfsákvörðunarrétti sínum. Ísraelsmenn hertu í gær refsiaðgerðir gegn Palestínumönnum í málum er varða skattgreiðslur og bankainnistæður í Ísrael.