Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ban og Serbar gagnrýna Ungverja

16.09.2015 - 17:49
epa04933354 Hungarian police use water canons at the Horgos 2 border crossing between Serbia and Hungary near Horgos, northern Serbia,  16 September 2015. Hungarian police fire tear gas and deploy water cannon to push migrants away from a barricade at
Ungverjar beittu háþrýstidælum til að hrekja flóttamenn frá landamærunum í dag. Mynd: EPA - MTI
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, gagnrýndi í dag meðferð Ungverja á flóttamönnum og sagði hana óviðunandi.

Ban kvaðst sleginn yfir myndum af atburðum við serbnesku landamærin í dag þar sem til átaka kom milli ungverskra lögreglumanna og flóttafólks við bæinn Roszke. Framkvæmdastjórinn sagði að þetta væri fólk sem flúið hefði stríð og ofsóknir og því bæri að sýna því samúð og virðingu.

 

Ungverska lögreglan beitti táragasi og háþrýstidælum til að hrekja fólkið frá landamærunum. Síðdegis komu þrír brynvagnar ungverska hersins að landamærunum búnir byssum.

Ungverjar hafa lokað landamærum sínum að Serbíu og handtaka þá sem komast yfir girðinguna sem þeir hafa reist þar til að hindra straum flóttamanna til landsins. Hátt í 400 komust yfir landamærin í gær og verða þeir sóttir til saka fyrir að vinna skemmdarverk á girðingunni og koma ólöglega til landsins.

Serbneska stjórnin hefur einnig gagnrýnt framgöngu Ungverja og hyggst senda liðsauka lögreglu að landamærunum.