Baltasar: Gagnrýni Krakauers á lágu plani

epa04914146 (L-R) British producer Tim Bevan, Australian actor/cast member Jason Clarke and Islandic director Baltasar Kormakur pose for the photographers at the photocall for 'Everest' during the 41st annual Deauville American Film Festival, in
 Mynd: EPA

Baltasar: Gagnrýni Krakauers á lágu plani

25.09.2015 - 23:13

Höfundar

Baltasar Kormákur, leikstjóri Everest, er ósáttur með gagnrýni Jon Krakauer á mynd sína og segir hana lágu plani. „Hann virðist halda að hann eigi rétt á þessu slysi - telur sig eiga það. En þegar allt kemur til alls er hann bara að reyna að selja bókina sína,“ segir Baltasar.

Krakauer var í viðtali við Los Angeles Times í kvöld. Þar fór hann hörðum orðum um Everest, sagði hana algjört bull. Baltasar hefði móðgað sig með henni og ef fólk vildi vita hvað gerðist á fjallinu í óveðrinu mikla 1996 ætti það að lesa bókina hans, Into Thin Air. Hún fjallar um sömu atburði og hefur selst í milljónum eintaka.

Ummælin hafa vakið nokkra athygli - til að mynda fjallar Hollywood Reporter um þau á vefsíðu sinni.

Krakauer gerir í viðtalinu athugasemdir við að ekkert samband hafi verið haft við sig. Þá hafi Michael Kelly - hann leikur rithöfundinn í myndinni - ekki gert neinar tilraunir til að ræða við sig.

Hann er sérstaklega ósáttur með eitt atriði í myndinni sem hann telur að gefi ranga mynd af sér. Þar segist persóna Krakauers ekki geta sinnt hjálparstörfum vegna snjóblindu.

Baltasar gefur lítið fyrir gagnrýni Krakauer í samtali við fréttastofu í kvöld. Í yfirlýsingu sem hann sendi bæði Los Angeles Times og RÚV er meðal annars vitnað í orð Krakauers sjálfs sem fengin eru úr grein í Outside Magazine þar sem hann segist hafa legið hjálparvana inn í tjaldi á meðan rússneski fjallgöngumaðurinn Anatoli Boukreev bjargaði mannslífum.

Í yfirlýsingunni segir enn fremur að bæði Baltasar og handritshöfundar myndarinnar hafi haft aðgang að fjölda fólks sem hafi verið á fjallinu þennan dag. Hann hafi sömuleiðis fengið að hlusta á hljóðupptökur sem enginn annar hafi áður fengið. 

Baltasar segir að Krakauer haldi augljóslega að hann eigi einhver réttindi að þessum harmleik. „Þessi gagnrýni er á mjög lágu plani - hann er bara að reyna að selja bókina sína og vekja athygli á sjálfum sér.“

Hann segir að sennilega hafi sjaldan verið unnin eins mikil rannsóknarvinna og fyrir þessa mynd. Meðal þeirra sem hafa lýst yfir hrifningu sinni eru Jan Arnold, ekkja Rob Hall - aðalpersóna myndarinnar - og Beck Weathers en hann var einn þeirra sem lifði af.

Leikstjórinn segir að þótt Krakauer hafi verið á fjallinu þegar slysið varð þýði það ekki að hann einn viti hvað gerðist. Into Thin Air hafi sömuleiðis verið umdeild meðal fjallgöngumanna og um hana hafi verið rifist. „Hann þurfti að umskrifa hana þar sem hann ruglaðist á fjallgöngumönnum,“ segir Baltasar.

Sjálfur hafi Krakauer verið kominn niður af fjallinu þegar atburðirnir gerðust. Baltasar bætir við að Krakauer hafi fullyrt í viðtalinu að einhverjir úr röðum Boukreevs - sem Ingvar E. Sigurðsson leikur í myndinni - hafi haft aðgang að tökuliðinu og fengið að koma með athugasemdir. Þær fullyrðingar voru síðan fjarlægðar.

Þessu er jafnframt vísað á bug í yfirlýsingu leikstjórans til Los Angeles Times.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Krakauer segir Baltasar hafa móðgað sig

Innlent

Mynd Baltasars þénar milljarða í miðasölu

Baltasar og Lilja á rauða dreglinum

Mynd með færslu
Menningarefni

Everest fær mikið lof en líka last