Baltasar frumsýnir í New York

Mynd með færslu
 Mynd:

Baltasar frumsýnir í New York

30.07.2013 - 20:05
Baltasar Kormákur segir það hafa verið ótrúlega sérstaka upplifun að koma til New York í gær og sjá víða blasa við kynningarefni úr nýrri kvikmynd sinni Two Guns. Myndin, sem var frumsýnd í gærkvöld, hefur fengið góða dóma.

Kvikmyndin 2 Guns segir frá fíkniefnalögreglumanni og starfsmanni leyniþjónustu sjóhersins sem starfa saman undir fölsku flaggi sem meðlimir glæpasamtaka. Hvorugur veit þó að hinn starfar fyrir yfirvöld sem afneita þeim svo þegar hættuleg aðgerð misheppnast og þá eru góð ráð dýr. 

Mark Wahlberg, sem Baltasar leikstýrði í myndinni Contraband, og óskarsverðlaunaleikarinn Denzel Washington fara með aðalhlutverkin. Baltasar, sem var viðstaddur frumsýningu myndarinnar í New York í gærkvöld ásamt fjölskyldu sinni, segir að stemningin þar og við komuna til borgarinnar hafi verið virkilega góð. „Þetta var náttúrulega ótrúlega sérstök upplifun við keyrum þarna inn í borgina og það er allt út í plakötum og maður hefur bara séð svona hjá öðrum, einhverjum frægum leikstjórum, ég var ekki hérna þegar contraband var frumsýnd og sá ekki það sem gerðist þá,“ segir Baltasar. 

Kvikmyndarýni hefur verið að tínast inn í dag. Flestir dómarnir eru mjög jákvæðir. Á vefsíðunni Variety er Baltasar sagður kunna sitt fag þegar komi að hasarmyndum. Myndin er sögð hnyttin og hröð. „Maður getur ekki beðið um meira, sérstaklega með svona myndir sem eru kannski ekki gagnrýnendavænar. Þetta er hasar og fjör og skemmtilegheit og þeir vilja oft hafa myndirnar alvarlegri og svona breyta heiminum meira en þetta, en maður átti ekkert endilega von á því. En það er ógeðslega gaman að sjá þetta fara svona vel af stað.“