Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Balsonaro vill senda herinn inn í Amazon

24.08.2019 - 01:25
epa07789242 A woman holds a sign that reads 'For the Amazon - awareness here and now' as people demonstrate in front of Brazil's consulate, in Medellin, Colombia, 23 August 2019, for the fires affecting the Amazon Forest during the last weeks.  EPA-EFE/Luis Eduardo Noriega
 Mynd: EPA - RÚV
Bolsonaro Brasilíuforseti hefur gefið út að her landsins verði sendur til Amazon regnskóganna til að ráða niðurlögum skógareldanna og uppræta glæpamenn sem hann segir bera ábyrgð á þeim.

Samkvæmt geimrannsóknarstofnun Brasilíu hafa um 700 nýir eldar kviknað seinustu tvo daga til viðbótar við þá rúmlega 75.000 skógarelda sem kviknað hafa á Amazon svæðinu seinustu vikur.

Fríverslunarsamningur Evrópusambandsins og Mercosur, efnahagsbandalags ríkja í Rómönsku-Ameríku, kann að vera í uppnámi vegna eldanna regnskógum Amazon.  Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, segir að stjórnvöld í Dyflinni ætli ekki að staðfesta samninginn standi Brasilíumenn ekki við skuldbindingar sínar í loftlagsmálum.  Frakkar ætla einnig að beita sér gegn samningnum vegna afstöðu Brasilíustjórnar í loftslagsmálum

 

Sérfræðingar segja að orsök eldanna sé of mikil landnýting þar sem skógum sé eytt til að rýma fyrir ræktunarlandi. Mikinn og þykkan reyk hefur lagt yfir stór landsvæði seinustu daga og vikur, meðal annars stórar borgir eins og Sau Paulo.

Bolsonaro hefur verið gagnrýndur fyrir aðgerðaleysi vegna eldanna. Geimvísindastofnun Brasilíu sagði fyrr í sumar að regnskógurinn eyðist nú hraðar eftir að hann tók við embætti í janúar. Hann brást við með því að reka yfirmann stofnunarinnar. Bolsonaro gerir því skóna að umhverfisverndarsinnar hafi kveikt eldana. „Eins og ég skil þetta getur vel hugsast að það séu náttúruverndarsamtök sem kynda undir eldunum í Amazon af því að þau tapa peningum. Í þeim tilgangi að koma Brasilíu í vandræði.“

Meðal þeirra sem nýlega  hafa lýst áhyggjum sínum eru Macron Frakklandsforseti og Angela Merkel, þýskalandskanslari. Bolsonaro er hins vegar ekkert gefið um afskipti annarra af ástandinu í Amazon og sakaði Macron um að vera að reyna að slá sig til riddara í pólitískum tilgangi með því að hvetja til viðræðna um eldana. Í gærkvöld sagði Donald Trum Bandaríkjaforseti á Twitter að Bandaríkin væru reiðubúin að veita alla þá aðstoð sem Brasilía þyrfti á að halda til að slökkva eldana.

Leiðtogar G-7 ríkjanna ætla að ræða stöðu eldanna á fundi sínum sem fram fer um helgina. AFP fréttastofan hafði í gær eftir einum af ráðgjöfum Emmanuels Macrons forseta að hópur stjórnarerindreka og ráðgjafa ynni að því að koma saman tillögu um raunhæfar aðgerðir til að stemma stigu við þeim.