Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ballarin bar víurnar í Erni

30.09.2019 - 11:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Michele Ballarin, stofnandi hins nýja WOW Air, átti fund með forráðamönnum flugfélaginu Ernir með möguleg kaup á félaginu í huga. Forstjóri Ernis telur að Ballarin hafi haft augastað á flugrekstrarleyfi félagsins.

Michele Ballarin hefur undanfarna mánuði unnið að endurreisn WOW Air og var markmiðið að fara fyrstu flugferðina í byrjun október. Því hefur nú verið frestað og er markmiðið sett á miðjan október. Fram hefur komið að félagið verði rekið á bandarísku flugrekstrarleyfi til að byrja með en sótt verði um íslenskt flugrekstrarleyfi þegar starfsemin verður komin í gang.

Hörður Guðmundsson, forstjóri Ernis, staðfestir við fréttastofu að hann hafi átt fund með Ballarin fyrir um mánuði síðan. „Við hlustuðum á hvað var þarna á ferðinni og hún bar ákveðnar hugmyndir og borð en okkur fannst það ekki henta okkur að fara í frekari viðræður á þessum grundvelli.“

Flugfélagið Ernir er með flugrekstrarleyfi á EES svæðinu og telur Hörður að Ballarin hafi haft augastað á því. Þótt flugrekstrarleyfi séu ekki bókfærð sem eignir felast í þeim þó nokkur verðmæti enda talsverð fyrirhöfn sem þeim fylgir. Hörður segir að Ballarin hafi ekki lagt fram formlegt tilboð í félagið. „Nei, það var ekkert slíkt enda hennar hugmyndir allt aðrar en okkar þannig að það fór ekki á það stig. Við fundum fljótt að þetta var ekki það sem hentaði okkar fyrirtæki eða áformum.“

Þótt enn standi til að hefja flugrekstur um miðjan næsta mánuð hefur ekkert komið fram um hvenær miðasala hefst.