Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Balí bannar einnota plast

26.06.2019 - 17:15
Erlent · Asía · Indónesía · mengun · Plast · Umhverfismál
Mynd með færslu
 Mynd: IPBES
Bann við einnota plasti tók gildi á indónesísku eynni Balí á sunnudag en það er í fyrsta sinn sem slíkar vörur eru bannaðar í landinu.

Bannið var samþykkt af landstjóra Balí 21. desember og var fyrirtækjum veittur hálfs árs frestur til að uppfylla skilyrði þess. Það tekur til plastpoka, röra og frauðplasts.

Tvær ungar stúlkur stofnuðu samtök gegn plastnotkun fyrir sex árum og hefur draumur þeirra nú orðið að veruleika.

Ásamt stúlkunum og samtökum þeirra hafa fleiri umhverfisverndarsinnar barist hart fyrir banninu. Lýst var yfir neyðarástandi á eyjunni í desember 2017 vegna mikillar plastmengunar en eyjan er einn vinsælasti ferðamannastaðurinn í Indónesíu.

Mengun er vaxandi vandamál í Indónesíu og hefur loftgæðum þar hrakað mikið undanfarna áratugi og plastmengun aukist mikið. Landið er í fjórða sæti á lista yfir lönd sem losa mestan koltvísýring á ári.