Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Bálhvasst á Djúpavogi og í Hamarsfirði

15.09.2013 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Bálhvasst hefur verið á sunnanverðum Austfjörðum og á Suðausturlandi í morgun, til að mynda á Djúpavogi og Höfn í Hornafirði. Í Hamarsfirði sunnan Djúpavogs er veðurhæðin komin í 34 metra á sekúndu samkvæmt mæli Vegagerðarinnar og hviður fara yfir 60 metra.

Reynir Arnórsson, formaður Björgunarsveitarinnar Báru á Djúpavogi, segir að mjög hvasst sé á Djúpavogi og í kring. Til dæmis sé ekkert ferðaveður í Hamarsfirði og Vegagerðin hafi lokað þjóðveginum innan við Djúpavog. Þrátt fyrir það hafi fólk verið þar á ferð í morgun. „Það eru 64 metrar núna í hviðum og sá sem vill vera á ferðinni þar hann er að taka mikla áhættu vegna þess að ég veit ekki hvar tryggingarnar eru annars vegar ef menn eru að ferðast í svona roki eins og er þarna,“ segir Reynir. 

Reynir segir að bátar í höfninni á Djúpavogi séu vel bundnir. Mikið rok sé í höfninni en þeir hreyfist þó ekki mikið. „Meira að segja kom hérna bátur snemma í morgun og þeir voru að klára að landa úr honum. Rennan hérna inn höfnina er mjög varasöm í þessu því það má ekkert út af bera, þá eru menn komnir upp í grjót," segir hann.

Reynir segir að um hádegi hafi ekki verið aftakaveður þó veður hafi verið hvasst. Hins vegar eigi að hvessa aftur um þrjú leytið. 


Höfnin á Djúpavogi. Mynd: Magnús Kristjánsson

Viðvörun frá Veðurstofu Íslands: Búist er við stormi meira en 20 metrum á sekúndu á landinu og mikilli úrkomu á landinu. Norðan og norðvestan 18 til 25 metrar á sekúndu kringum hádegi, en 20 og 28 síðdegis, hvassast suðaustan-til. Víða mjög snarpar vindhviður við fjöll, einkum suðaustantil. Talsverð eða mikil rigning austanlands, talsverð rigning eða slydda norðanlands, en snjókoma til fjalla. Úrkomulítið sunnan- og vestanlands. Dregur heldur úr vindi á morgun, fyrst vestantil. Hiti eitt til tíu stig, mildast syðst.