BAFTA-tilnefningar gagnrýndar fyrir skort á fjölbreytni

Mynd með færslu
 Mynd: Joker

BAFTA-tilnefningar gagnrýndar fyrir skort á fjölbreytni

07.01.2020 - 14:27

Höfundar

Breska sjónvarps-og kvikmyndaakademían sætir nú mikilli gagnrýni heima fyrir þar sem eingöngu hvítir leikarar eru tilnefndir til helstu verðlauna hátíðarinnar. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem verðlaunahátíðin er gagnrýnd fyrir skort á fjölbreytni.

Í umfjöllun breska blaðsins Guardian kemur fram að meðal þeirra sem breska kvikmyndaakademían hafi litið framhjá séu leikara eins og Jennifer Lopez, Eddie Murphy og Awkwafina. 

Myllumerkið #BaftaSoWhite hefur farið á flug á samfélagsmiðlum og það notað til að gagnrýna valið. „Þessi skortur á fjölbreytni er okkur mikil vonbrigði. Við þurfum að leggja harðar að okkur til að ná fram raunverulegum breytingum,“ hefur Guardian eftir Amöndu Berry, forseta BAFTA.

En það eru ekki bara tilnefningarnar í leikaraflokknum sem hafa verið gagnrýndar. Þannig eru eingöngu karlar tilnefndir sem leikstjórar ársins og  gengið fram hjá Gretu Gerwig sem leikstýrði kvikmyndinni Little Women.   

Guardian segir að reyndar hafi fleira komið á óvart þegar tilnefningarnar voru tilkynntar. Þannig sé Robert De Niro ekki tilnefndur fyrir leik sinn í The Irishman og kvikmyndin Marriage Story, sem var tilnefnd til flestra Golden Globe-verðlauna, fékk hvorki tilnefningu sem besta myndin né fyrir leikstjórn.

Stóru tíðindi, að mati Guardian, er hins vegar sigurganga Joker sem er tilnefnd til 11 verðlauna. Myndin er nokkuð umdeild en virðist hafa heillað félaga í akademíunni upp úr skónum. Hildur Guðnadóttir er tilnefnd fyrir tónlistina í myndinni.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hildur tilnefnd til BAFTA-verðlaunanna