Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bætur til fólks í sóttkví ættu að koma frá ríkinu

03.03.2020 - 11:28
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að atvinnurekendur eigi ekki að greiða fólki laun í sóttkví. Ríkið eigi miklu frekar að greiða þeim bætur sem þurfa að vera launalaus vegna þessa.

Formaður samkeppnishæfnissviðs SA, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að forföll fólks í sóttkví væru eins og vera frá vinnu vegna ófærðar. Þau væru lögmæt en hins vegar fengi fólk ekki greidd laun á meðan.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, tekur undir þetta í samtali við fréttastofu. „Það er alls ekki sjálfsagt að atvinnurekandi greiði laun á meðan fólk er í sóttkví. Ef fólk fer á eigin vegum til útlanda og lendir í sóttkví þá er það ekki atvinnurekandans að greiða laun á meðan. Ef fólk fer á vegum atvinnurekanda til útlanda og lendir í sóttkví þá ber atvinnurekanda að greiða laun á meðan sóttkví stendur,“ segir Halldór Benjamín.

Spurður hvort ekki megi færa rök að því að það sé samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja að reyna með öllum hætti að stuðla að því að hefta útbreiðslu veirunnar í samfélaginu í almannavarnaástandi segir Halldór: „Það væri miklu frekar á ábyrgð ríkisins að gera það, að greiða þá einhverjar bætur til fólks sem er launalaust í sóttkví."

En hvað með stóru myndina? Er ekki hagur atvinnurekandans að reyna með öllum hætti að koma í veg fyrir smit á vinnustað með þeim kostnaði sem af því myndi hljótast?  „Það eru alls konar hliðar á þessu máli. Það eru þúsundir manna sem taka veikindadaga án þess að vera veikir." segir hann.

Það eru þá einungis starfsmenn í einkageiranum sem ekki fá greidd laun í sóttkví því kjara- og mannauðssýsla ríkisins sendi í gær leiðbeiningar til stjórnenda stofnana um að starfsfólk í sóttkví fái greidd meðaltalslaun á meðan og tímabilið dragist ekki frá veikindarétti. Hið sama verður gert hjá sveitarfélögunum.