Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bætur eftir sýknu bæði fyrir fjártjón og miska

Mynd: Skjáskot / RÚV
Fólk sem setið hefur inni vegna dóms og er síðar sýknað, líkt og í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum, á rétt á bótum, samkvæmt lögum um meðferð sakamála, að sögn Þóru Hallgrímsdóttur, sérfræðings í bótarétti. Ákvæði um fyrningu geta þó flækt mál sem þessi.

Lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, eins þeirra sem sýknaður var í Guðmundar- og Geirfinns málum, hefur lagt fram kröfu um 1,3 milljarða króna í bætur frá ríkinu. Í nýlegri greinargerð ríkislögmanns segir að Guðjón hafi sjálfur stuðlað að því að hann væri sakfelldur og meðal annars þess vegna sé ríkinu ekki skylt að greiða honum bætur.

Þeir sem hafa verið sakfelldir og síðar sýknaðir njóta réttinda umfram aðra í skaðabótarétti, að sögn Þóru. Í lögum um meðferð sakamála sé sérstök bótaregla sem gerir ráð fyrir slíkum bótum. „Reglan gerir ráð fyrir því að maður sem hefur verið borinn sökum í sakamáli, hann á rétt til bóta ef hann hefur verið sýknaður með endanlegum dómi. Bæturnar sem á að greiða vegna slíks tjóns eru bæði vegna fjártjóns og miska,“ sagði Þóra í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.  

Aukin réttindi með lögum 2008

Ákvæði um fyrningu geta flækt mál sem þessi, segir Þóra, þar sem gildandi lög, sem hún vísaði í, um bætur eru síðan 2008. Samkvæmt lögunum taka þau til atvika á meðan lögin eru í gildi. Sambærileg lög hafa verið að einhverju leyti í gildi frá 1893 en hafa breyst með tímanum, að hennar sögn. Reglan var svo rýmkuð með lögunum sem tóku gildi 2008. Réttindin hafi þá að orðið meiri fyrir fólk sem hefur þurfa að þola þvingunaraðgerðir, eins og gæsluvarðhald, handtöku, leit eða símhlerun, að sögn Þóru. Með lögunum 2008 hafi komið réttur til að krefjast bóta og fá gjafsókn.  

Dæmi er um bætur í máli fyrir 2008

Dæmi er um að bótaréttur hafi verið viðurkenndur því að atvik sem leiddu til sýknu hafi átt sér stað eftir árið 2008. Það var í máli sem kennt er við skemmtistaðinn Vegas. Maður var sýknaður í héraðsdómi 1998 fyrir líkamsárás sem leiddi til mannsláts en sakfelldur ári síðar í Hæstarétti. Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði árið 2003 að Hæstiréttur hafi brotið gegn ákvæðum um réttláta málsmeðferð með dómnum. Manninum voru greiddar bætur, málið endurupptekið árið 2012 í Hæstarétti og hann sýknaður. 

Ekki allir aðilar máls með lögvarinn rétt

Forsætisráðherra hefur kynnt fyrir ríkisstjórn frumvarp sem felur í sér heimild stjórnvalda til að greiða sanngirnisbætur til eftirlifenda og aðstandenda þeirra sem sakfelldir voru, og síðar sýknaðir, í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Það verður kynnt Alþingi á næstu dögum. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í umræðum á Alþingi í síðustu viku að það eigi ekki allir aðilar málsins lögvarinn rétt til bóta. Sáttanefnd í málinu hafi verið ætlað að reyna að ná heildarsamkomulagi sem myndi skila sér í frumvarpi sem myndi byggja á heildrænni sýn á málið. Ef ljúka eigi málunum með sanngjörnum hætti þurfi það að koma til kasta Alþingis