Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Bæta þarf þjónustu við ferðafólk úti á landi

24.12.2015 - 11:40
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Ef takast á að fá fleiri ferðamenn út á land um jól og áramót þarf að veita betri þjónustu. Þetta segir hótelstjóri Icelandair hótelsins á Akureyri. Aðeins tveir veitingastaðir eru opnir nyrðra í dag og á morgun.

Aðeins tveir veitingastaðir opnir á Akureyri í kvöld
Gert er ráð fyrir að ferðamönnum, sem velja að heimsækja Ísland í jólamánuðinum, fjölgi um 30% á milli ára. Í höfuðborginni hafa yfir tuttugu veitingastaðir opið í kvöld, aðfangadag, og samkvæmt lauslegri könnun fréttastofu er fullbókað á flestum þeirra.

Á Akureyri er hins vegar aðeins opið á tveimur veitingastöðum í kvöld og á morgun, Hótel Kea og hótel Icelandair. Sigrún Björk Jakobsdóttir hótelstjóri Icelandair hótelsins á Akureyri segir að ef ferðaþjónustuaðlir á landsbyggðinni ætla að sækja fram á þessum tíma þurfi að taka markaðssetningu á svæðinu fastari tökum. Eitt af því sem þurfi að huga að séu opnunartímar yfir hátíðarnar. Hún segir að að þeir ferðamenn, sem hún hefur talað við, séu ánægðir með að vera komnir norður.

„En margir spurja sig hvað er um að vera og kannski undrandi á því að það er lokað allt frá hádegi í dag og alveg fram á annan í jólum. Á flestum stöðum erlendis er opið allt saman á morgun, og er það mikill dagur í verslun og á veitingastöðum.“

Á annað hundrað ferðamenn dvelja á Akureyri yfir hátíðarnar
Sigrún segir að allt í allt dvelji líklega á annað hundrað ferðamenn á Akureyri yfir hátíðarnar og hún segir mikilvægt að ferðaþjónustuaðilar hugsi til framtíðar.

„Ef við ætlum að sækja fram þá verðum við svolítið að opna meira og veita í rauninni betri þjónustu sem bær heldur en að vera bara með tvö hótel opin. Við verðum að byrja einhversstaðar. Þetta er kannski eins og páskarnir voru á Akureyri fyrir tuttugu árum síðan við erum á sama stað með jólin, og við sjáum bara breytinguna sem varð á þessum tuttugu árum.

Freyja Dögg Frímannsdóttir
Fréttastofa RÚV