Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Bændur nýta sér sterka krónu og byggja ný fjós

23.05.2017 - 23:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Mikil fjárfesting er í kúabúskap víða um land og í tveimur sveitarfélögum á Norðurlandi eru tæplega tuttugu ný fjós í bígerð. Þar nýta bændur sér sterka krónu og hagstætt verð á innfluttu byggingarefni. Þá kallar ný reglugerð á bættan aðbúnað.

Það er búið að grafa fyrir 760 fermetra fjósi á bænum Göngustöðum í Svarfaðardal. Gunnar Kristinn Guðmundsson bóndi bíður eftir teikningum svo hægt sé að byrja að byggja. Núverandi fjós á bænum stenst ekki lengur nýja reglugerð um aðbúnað, meðal annars kröfu um lágmarksstærð bása. „Reglugerðin í dag segir að básarnir séu of stuttir. Og við hefðum þá frest fram á haust til þess að breyta þeim, sem er kostnaður fyrir gamalt fjós og þá var bara ákveðið að fara í þessa framkvæmd,“ segir Gunnar. 

Ný reglugerð og sterk króna 

Þessi reglugerð er ein helsta ástæða þess að bændur undirbúa nú fjósbyggingar. Sterk íslensk króna hefur þar einnig mikið að segja því innflutt byggingarefni og tækjabúnaður er á hagstæðu verði. „Að sjálfsögðu hefur það bara mikil áhrif. Þetta náttúrulega hjálpar mikið með bæði tæki sem við erum að kaupa inn og hús og bara allan aðbúnað,“ segir Gunnar.

Um 20 fjósbyggingar í Svarfaðardal og Skagafirði

Í Svarfaðardal eru bændur á að minnsta kosti sjö bæjum ýmist að hefja byggingu á nýju fjósi eða stækka það sem fyrir er. Þá eru tólf fjósbyggingar í Skagafirði ýmist í undirbúningi eða komnar af stað. Og það er hugur í mönnum víðar. 177 umsóknir bárust Matvælastofnun um fjárfestingarstuðning vegna nýframkvæmda eða endurbóta í nautgriparækt á þessu ári.

Unga fólkið tekur frekar við nýbyggðu fjósi

Á bænum Sökku í Svarfaðardal var Gunnsteinn Þorgilsson, bóndi og hans fólk, að járnbinda í dag. Hér á að stækka fjós og fjölga kúm. „Og síðan kannski hugsa menn aðeins um það, og grípa tækifærið í sambandi við nýliðun, að það eru meiri líkur á því að unga fólkið vilji taka við því sem er sæmilega vel upp byggt og ef það er klárt í slaginn,“ segir hann.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV