Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Bændasamtökin fordæma aðbúnað gripanna

10.12.2012 - 18:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, segir samtökin fordæma aðbúnað gripanna á kúabúinu Brúarreykjum. Matvælastofnun afturkallaði starfsleyfi búsins í lok nóvember.

Í bréfi sem stofnunin sendi býlinu var meðal annars fundið að hreinlæti við handþvottaaðstöðu, mjaltaþjónn var skítugur, for var um allt fjós og á gripunum. Þá kemur fram að þrifum á mjólkurtanki var mjög ábótavant. Að auki voru of margir gripir í fjósinu. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa héraðsdýralæknar fylgst með búinu í nokkur ár. Ljósmyndir sem Matvælastofnun tók við eftirlit hafa verið birtar og vakið mikinn óhug.

Haraldur segir að slík vanhirðu- og vanbúnaðarmál eins og þessar myndir beri með sér séu slæm og ekki verjandi. Fyrir bændastéttina sé þetta mjög slæmt og eigi ekki að þekkjast. Bændasamtökin fordæmi alla meðferð á gripum eins og þá sem myndirnar beri með sér.

Þetta séu mjög slæm mál fyrir bændastéttina, sem veki mikla athygli þegar þau komi upp. Hann telji það vegna þess að þetta séu sem betur fer undantekningartilfelli. Þetta eigi ekki að líðast, en sem betur fer séu ekki mjög mörg mál sem komi upp.